Frétt

Erlendir ferðamenn jákvæðir í garð endurnýjanlegrar orkuvinnslu á Íslandi

7. júní 2016

Gallup hefur framkvæmt rannsókn fyrir Landsvirkjun sem gefur sterka vísbendingu um jákvætt viðhorf erlendra ferðamanna til endurnýjanlegrar orkuvinnslu á Íslandi. Samkvæmt könnuninni eru  97% erlendra ferðamanna jákvæð í garð endurnýjanlegra orkugjafa hér á landi. Rannsóknin var framkvæmd á netinu og voru þátttakendur 1.014 talsins.

Þá svöruðu þrír af hverjum fjórum, 75%, því til að vinnsla endurnýjanlegrar orku hefði haft jákvæð áhrif á það hvernig þeir upplifðu íslenska náttúru. Eitt prósent taldi hana hafa haft neikvæð áhrif á upplifunina. Tæplega helmingur aðspurðra, eða 46%, lýsti yfir áhuga á því að heimsækja gestastofu í aflstöð í næstu heimsókn sinni til landsins og 37% töldu að aukin vinnsla endurnýjanlegrar orku á Íslandi myndi auka líkurnar á því að þau sæktu landið heim á ný. 93% þátttakenda í rannsókninni höfðu tekið eftir orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum í heimsókn sinni.

Hér er skýrsla Gallup um viðhorfsrannsóknina.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Könnun Gallup staðfestir það sem haldið hefur verið fram um að ímynd Íslands sé samofin endurnýjanlegri orkuvinnslu. Ísland er land grænnar orku í augum ferðamanna, sem finnst mikið til þess koma að öll okkar orkuvinnsla fari fram með endurnýjanlegum hætti.“

Samstarf orkuiðnaðar og ferðaþjónustu hefur gengið vel fram að þessu. Aðgengi og aðstaða sem fylgt hafa orkuframkvæmdum hafa gjarnan komið ferðaþjónustu til góða. Þegar aflstöðvar hafa verið reistar njóta þær, og tengdur rekstur, oft vinsælda hjá ferðamönnum. Góð dæmi um þetta eru Bláa lónið, jarðböðin í Mývatnssveit, Hellisheiðarvirkjun, orkusýningin í Reykjanesvirkjun og gestastofur Landsvirkjunar í Ljósafossstöð, Búrfellsstöð, Kröflustöð og sjálf Kárahnjúkastífla.

Tækifæri í orkutengdri ferðaþjónustu

Heimsóknir erlendra gesta á þessa staði skipta hundruðum þúsunda á ári hverju og miðað við þróun í fjölda erlendra ferðamanna mun þeim enn fara fjölgandi á næstu árum. Eins og fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar telur tæpur helmingur aðspurðra líklegt að í næstu heimsókn heimsæki þau gestastofu í jarðvarma- eða vatnsaflsstöð. Því er ljóst að tækifæri eru fyrir hendi í orkutengdri ferðaþjónustu á næstu misserum og árum.

Ekki spurt um einstök virkjunaráform

Taka ber fram að ferðamenn voru ekki spurðir um afstöðu til einstakra virkjanaáforma, heldur einungis til núverandi orkuvinnslu. Landsvirkjun hefur í hyggju að láta vinna frekari kannanir á afstöðu erlendra ferðamanna til orkuvinnslu á Íslandi og þeirra virkjana sem þegar hafa verið reistar.

Fréttasafn Prenta