Frétt

Færsla óss Lagarfljóts og Jöklu í Héraðsflóa

9. janúar 2014

Landsvirkjun stendur fyrir umfangsmiklum rannsóknum, vöktunum og viðbrögðum vegna áhrifa af Kárahnjúkavirkjun.  Niðurstöður eru kynntar sveitarstjórnum og viðeigandi hagsmunaaðilum og reglulega gefnar út opinberlega, meðal annars á vef sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi.

Frá því að rekstur Kárahnjúkavirkjunar hófst hefur ós Lagarfljóts/Jöklu færst um 1,3 km til norðurs og er ósinn nú 3,2 km norðar en hann hefur oftast verið í síðustu öld.


Mynd 1. Strönd Héraðsflóa og staðsetning óssins á mismunandi tímum. Undirliggjandi loftmynd er frá 2011.

Orsökin fyrir færslu óssins er ekki þekkt. Þekkt er að staðsetning ósa vatnsfalla á sandströndum getur verið mjög breytileg (háð m.a. veðurfari, strandstraumum og ísstíflum) og má þar sem dæmi nefna ós Markarfljóts. Í ljósi þess að færslan á ósi Lagarfljóts og Jöklu til norðurs byrjaði áður en rekstur Kárahnjúkavirkjunar hófst er ekki á einhlítan hátt hægt að tengja breytinguna byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

Ábending hefur komið frá landeigendum norðan árinnar að hætta sé á að áin brjóti sér leið yfir í Fögruhlíðará ef færslan á ósnum til norðurs heldur áfram. 

Mynd 2. Myndin sýnir aðstæður í flóði 3/6 2013 en þá vatnar yfir í Fögruhlíðará.

Mynd 3. Myndin er tekin 5/7 2012 og er sjónarhornið svipað og á mynd 2. Mynd 3 sýnir dæmigerðar aðstæður (ekki flóð).

Landsvirkjun hefur verið í samskiptum við hagsmunaaðila s.s. veiðifélög á svæðinu, landeigendur, stofnar og sveitarfélagið Fljótsdalshérað vegna málsins.  Landsvirkjun hefur kynnt landeigendum þá skoðun sína að rétt sé að grafa út nýjan ós, rúmum 3 km sunnan við núverandi ós, á þeim stað sem ósinn hefur jafnan verið frá 1945 til 2000.

Gert er ráð fyrir að grafa um 200 m langan og 10 m breiðan skurð í gegnum fjörukambinn.  Botn skurðarins nær um 1 m niður fyrir meðalsjávarhæð.  Gert er ráð fyrir að árvatnið grafi síðan nýja ósinn út samhliða því að brimið loki núverandi ósi.  Rúmmál þess skurðar sem þarf að grafa er um 12.000 m3.  Efnið er lagt til hliðar við skurðinn og árvatnið ber það síðan til sjávar samhliða því að nýr ós grefst út.  Þann 19. desember 2013 gaf Skipulagsstofnun út það álit að framkvæmdin væri ekki matsskyld.  Landsvirkjun miðar við að framkvæma verkið í janúar/febrúar á þessu ári ef veður leyfir.  Með því að framkvæma færslu óssins á þessum árstíma er hægt að lágmarka þau áhrif sem hugsanlega verða á svæðinu vegna framkvæmdanna.

Mynd 4.  Ljósmynd af botni Héraðsflóa þann 7. október 2013. Rauða örin sýnir staðsetningu á nýjum ósi.

 

Fréttasafn Prenta