Frétt

Færsla óss Lagarfljóts og Jöklu í Héraðsflóa

11. júní 2014
Ljósmynd af botni Héraðsflóa þann 7. október 2013. Rauða örin sýnir staðsetningu á nýjum ósi.

Í febrúar síðastliðnum gerði Landsvirkjun tilraun til að færa ós Lagarfljóts og Jöklu um rúma 3 km til suðurs á þann stað sem hann hefur oftast verið á síðustu öld.  Grafinn var 10 m breiður skurður í gegnum fjörukambinn.  Gert var ráð fyrir að árvatnið græfi síðan nýja ósinn út samhliða því að brimið lokaði núverandi ósi enda er verið að stytta rennslisleið vatnsins til sjávar (mynd 1).

Sjá frétt um málið frá því í janúar 2014

Skömmu eftir að nýi ósinn var opnaður lokaði brimið ósnum og voru hagsmunaaðilar þá upplýstir um að gerð yrði önnur tilraun í haust enda hafði verið miðað við að framkvæmdatíminn yrði ekki nálægt göngutíma laxfiska.  Nýlega óskuðu landeigendur/ábúendur eftir því að Landsvirkjun skoðaði möguleikann að opna ósinn nú í júní.  Að fenginni jákvæðri umsögn Veiðimálastofnunar og leyfi frá Fiskistofu var ákveðið að opna nýjan ós á sama stað og í febrúar og var það gert nú um hvítasunnuhelgina.

Á myndum 2 og 3 sést að vatnið grefur nýja ósinn hratt út og það verður fróðlegt að sjá síðar í sumar hvorn ósinn árnar velja, þann nýja eða þann gamla.


Nýr ós skömmu eftir að hann var opnaður þann 8. júní.

Nýr ós þann 9. júní en þá var farvegurinn til sjávar orðinn 100 m breiður. 

 

Fréttasafn Prenta