Frétt

Ferðamenn jákvæðir í garð endurnýjanlegrar orkuvinnslu á Íslandi

1. nóvember 2016

Þrír af hverjum fjórum erlendum ferðamönnum — 76% — segja að endurnýjanleg orkuvinnsla hafi haft jákvæð áhrif á upplifun þeirra af íslenskri náttúru þegar þeir sóttu Ísland heim.

Þetta kemur fram í könnun sem Gallup gerði meðal erlendra ferðamanna í Leifsstöð. 23% sögðu endurnýjanlega orkuvinnslu engin áhrif hafa á upplifun af íslenskri náttúru og aðeins 1% taldi hana hafa haft neikvæð áhrif.

Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar, segir í viðtali við Morgunblaðið að könnunin staðfesti að orkuvinnsla með endurnýjanlegum orkugjöfum styðji við jákvæða ímynd Íslands og þar með við ferðaþjónustuna, en 97% aðspurðra erlendra ferðamanna segjast jákvæð gagnvart endurnýjanlegum orkugjöfum á Íslandi.

Landsvirkjun hefur aldrei tekið á móti jafn mörgum ferðamönnum og í ár, en gestir í gestastofum fyrirtækisins voru tæplega 28 þúsund talsins í sumar.

Á sýningunni „Orka til framtíðar“ í Ljósafossstöð veita fjölbreytt og fræðandi sýningaratriði orkuboltum á öllum aldri tækifæri til að safna saman rafeindum, dæla úr lónum, fanga vindinn og lýsa upp heiminn á 120 árum.

Landsvirkjun tekur á móti gestum á þremur stöðum á landinu; við Ljósafossstöð, þar sem sýningin „Orka til framtíðar“ var opnuð í ágúst 2015, Kröflustöð sem var opnuð 2012 og svo Kárahnjúkastíflu, þar sem leiðsögumaður tekur á móti gestum tvo daga vikunnar við stífluna. Gestastofan í Ljósafossstöð er opin alla daga vikunnar á meðan heimsóknarmöguleikar við Kröflustöð og Kárahnjúka eru aðeins yfir sumartímann. Ljósafossstöð er á Sogssvæðinu við Úlfljótsvatn og er í um 50 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík.

Gagarín og Tvíhorf eru hönnuðir sýningarinnar. Gagarín hlaut hin virtu Red Dot-hönnunarverðlaun í flokki upplýsingahönnunar og einnig hlaut sýningin gullverðlaun í flokki stafrænnar hönnunar í samkeppni á vegum European Design Awards fyrr á árinu.

Hér má nálgast niðurstöður rannsóknar Gallup um viðhorf erlendra ferðamanna.

Fréttasafn Prenta