Frétt

Fjölmenni á opnum ársfundi Landsvirkjunar á 50. afmælisári

5. maí 2015
Yfir 700 manns mættu á opinn ársfund Landsvirkjunar á afmælisári fyrirtækisins
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, ræddi um sterka fjárhagsstöðu, auknar arðgreiðslur og möguleika á breiðri sátt nýtingar og verndunar
Forseti Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, ræddi um nýtt og glæsilegt vaxtaskeið íslensku þjóðarinnar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ræddi um sæstreng og stofnun orkuauðlindasjóðs.
Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, rakti sögu fyrirtækisins

Yfir 700 manns mættu á opinn ársfund á 50. afmælisári Landsvirkjunar, sem haldinn var í Eldborgarsal Hörpu þann 5. maí 2015. Tæplega 1.000 manns fylgdust með beinni vefútsendingu. Yfirskriftin var „Verðmæti til framtíðar“ og stjórnuðu Hörður Arnarson forstjóri og Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri fundinum.

Nýtt vaxtarskeið ef samstaðan er varðveitt

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, flutti ávarp. Í máli hans kom m.a. fram að framundan gæti verið nýtt og glæsilegt vaxtarskeið þjóðinni til heilla ef hún bæri gæfu til að vanda verkin og varðveita samstöðuna. Hin nýju þáttaskil sem blöstu við á afmælisári Landsvirkjunar: hraður vöxtur gagnavera, gríðarlegt magn nýrra upplýsinga og gagna sem bættist við á hverju ári, óskir um að reisa hér fleiri iðjuver sem og reynsla Norðmanna og annarra Evrópuþjóða af sölu rafmagns um sæstrengi, áhugi breska ríkisins á slíkum viðskiptum við Íslendinga og hugsanleg samtenging Íslands og Grænlands, sýndu þetta.

Tímabært að stofna orkuauðlindasjóð

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, flutti einnig ávarp. Hann sagði m.a. að það væri ábyrgðarhlutur að kanna ekki af alvöru kosti beinnar orkusölu úr landi. Að mörgu væri þó að hyggja, áhrifum á innanlandsmarkað, hverju væri fórnað með slíku á móti mögulegum ávinningi.

Þá sagðist Bjarni telja tímabært, m.a. í ljósi batnandi rekstrar og skuldastöðu Landsvirkjunar, að Íslendingar stofnuðu sérstakan orkuauðlindasjóð, fullveldissjóð Íslendinga, sem í myndi renna allur beinn arður af nýtingu orkuauðlindanna.

Með því að leggja inn í sérstakan sjóð arðgreiðslur Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja ríkisins væri hægt að hefja uppbyggingu á varasjóði þjóðarinnar, sem um leið væri hugsaður sem stöðugleikasjóður til að jafna út sveiflur í efnahagslífinu. Til að byrja með kæmi til greina að orkuauðlindasjóðurinn væri gegnumstreymissjóður, nýttur til að greiða niður skuldir ríkisins og styðja við fjármögnun innviða á borð við framkvæmdir Landspítalans eða uppbyggingu í menntakerfinu.

Jóhannes Nordal heiðraður

Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður, rakti sögu Landsvirkjunar og heiðraði í ávarpi sínu Jóhannes Nordal fyrrverandi seðlabankastjóra, sem var fyrsti stjórnarformaður fyrirtækisins. Jóhannes gegndi þeirri stöðu í 30 ár og lét af störfum 30. júní 1995. Jónas sagði að undir undir tryggri forystu Jóhannesar hefði verið lagður grunnur að því fyrirtæki sem Landsvirkjun síðar varð. „Að öðrum ólöstuðum á hann mestan heiður skilinn fyrir störf fyrir Landsvirkjun. Ætla má að Jóhannes hafi snemma gert sér grein fyrir því, að grundvöllur framfara væri byggður á athafnasemi og framsýni,“ sagði Jónas m.a. í ávarpi sínu. Hann tilkynnti einnig að núverandi starfsfólk hefði ákveðið  að afmarka reit til gróðursetningar við Búrfellsvirkjun á 50 ára afmælisdegi fyrirtækisins þann 1. júlí næstkomandi, og nefna hann Jóhannesarlund.

Breið sátt um aukna verndun og nýtingu möguleg

Í erindi sínu sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, að breið sátt um aukna verndun og nýtingu væri möguleg í íslensku samfélagi. Hann sagðist m.a. telja að mögulegt væri að ná niðurstöðu um að tvöfalda verndarsvæði utan jökla á Íslandi, um leið og orkuvinnsla væri aukin umtalsvert.

Hörður rakti sterka fjárhagsstöðu Landsvirkjunar, en síðustu fimm ár hefur fjármunamyndun í fyrirtækinu numið 150 milljörðum króna. Þar af hafa 82 milljarðar runnið til niðurgreiðslu hreinna skulda og 68 milljarðar til fjárfestinga. Á sama tíma hafa arðgreiðslur numið 4,8 milljörðum króna. Hörður rakti hvernig góðar horfur í rekstri og nýtt markaðsumhverfi gera nú að verkum að eftir 2-3 ár ætti að vera hægt að hægja á niðurgreiðslu skulda og greiða aukinn arð til eiganda fyrirtækisins. Sagðist hann telja raunhæft að árlegar arðgreiðslur ættu að geta numið 10-20 milljörðum ára eftir 2-3 ár, miðað við núverandi rekstrarforsendur.

Að síðustu var á fundinum sýnd mynd um byggingu Búrfellsvirkjunar, sem gerð var í tilefni af fimmtíu ára afmælinu.

 

Fréttasafn Prenta