Frétt

Fjölmennur ársfundur á tíu ára afmæli Sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi

11. maí 2017
Dr. Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, hélt erindi um aðferðafræði og sögu félagsvísa.
Dr. Sigrún Birna Sigurðardóttir hjá Félagsvísindastofnun kynnti könnun á viðhorfi til verkefnisins.
Guðmundur Sveinsson Kröyer hjá Alcoa Fjarðaáli kynnti losun gróðurhúsalofttegunda hjá fyrirtækinu.
Fundargestir voru um 60 talsins.
Fundargestum var skipt í hópa sem kynntu svo niðurstöður sínar.

60 manns sóttu ársfund Sjálfbærniverkefnis Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar, sem haldinn var í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði á dögunum. Vöktun sjálfbærnivísa í verkefninu hefur nú staðið í 10 ár.

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, setti fundinn. Í máli hans kom fram að verkefnið, sem felur í sér að fylgst er með áhrifum byggingar álvers Alcoa og Kárahnjúkavirkjunar á samfélag, efnahag og umhverfi á Austurlandi, væri einstakt á heimsvísu. Verk væri að vinna að kynna og greina þau miklu gögn sem lægju fyrir eftir þennan áratug.

Freyr Ævarsson, verkefnastjóri umhverfismála hjá Fljótsdalshéraði og fulltrúi í stýrihópi Sjálfbærniverkefnisins, kynnti niðurstöður SVÓT greiningar á Sjálfbærniverkefninu frá ársfundinum 2016.

Dr. Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, hélt erindi um aðferðafræði og sögu félagsvísa, sem fela í sér alþjóðlegt og staðbundið mat á sjálfbærni samfélaga. Dr. Sigrún Birna Sigurðardóttir, kollega hennar á Félagsvísindastofnun, kynnti könnun á viðhorfi til verkefnisins og þekkingu á því og voru þær þeirrar skoðunar að rýna þyrfti vísana - fyrirtækin tvö væru með verkefninu að gefa samfélaginu mikið magn gagna, en á skorti að þau væru nýtt.

Að loknu hópastarfi og kynningum á niðurstöðum þess voru kynntar athyglisverðar niðurstöður vöktunar 2016; annars vegar kynnti Dagbjartur Jónsson hjá Landsvirkjun uppgræðslu á vegum Landsvirkjunar og árangur hennar og hins vegar kynnti Guðmundur Sveinsson Kröyer hjá Alcoa Fjarðaáli losun gróðurhúsalofttegunda hjá fyrirtækinu.

Að síðustu tók Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og fulltrúi í stýrihópi Sjálfbærniverkefnisins, saman helstu niðurstöður fundarins. Fundarstjóri var Gunnar Jónsson, bæjarritari í Fjarðabyggð.

Fréttasafn Prenta