Frétt

Fjölmennur ársfundur Landsvirkjunar 2016

14. apríl 2016

Ársfundur Landsvirkjunar var haldinn á Hilton Nordica þann 14. apríl 2016, undir yfirskriftinni „Auðlind fylgir ábyrgð“. Tæplega 400 gestir mættu á fundinn og sköpuðust líflegar umræður í lok hans.

Vinna við auðlindasjóð heldur áfram

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fjallaði í erindi sínu nánar um varasjóð Íslendinga, sem hann nefndi í fyrsta sinn á ársfundi fyrirtækisins ári áður og myndi byggja á arðgreiðslum Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja ríkisins. Greindi hann frá því að að á fundi með fulltrúum allra stjórnmálaflokka á þingi hefði hann fundið breiðan stuðning við þá grunnhugsun sem birtist í tillögunum - að Íslendingar ættu samhliða áframhaldandi uppbyggingu landsins að leggja til hliðar til að jafna út sveiflur og styrkja efnahagslega stöðu sína.

Í máli Bjarna kom fram að hann hefði lagt til við ríkisstjórn að skipaðir yrðu tveir hópar, annars vegar þriggja manna starfshópur sem fengi það hlutverk að gera frumvarp til laga um sjóðinn og hins vegar hópur með fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi sem veitti álit sitt á vinnu frumvarpshópsins.

Góð fjárhagsstaða og skuldalækkun

Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður rakti m.a. í ræðu sinni styrka fjárhagslega stöðu Landsvirkjunar. Kom fram í máli hans að rekstrarárangur undanfarinna ár hefði verið afar góður. „Sjóðstreymi hefur verið sterkt og hreinar skuldir hafa lækkað um ríflega 107 milljarða króna frá árinu 2010. Eiginfjárhlutfallið er nú hærra en verið hefur frá upphafsárum fyrirtækisins, eða tæplega 45%. Handbært fé frá rekstri hefur staðið undir fjárfestingum síðastliðinna ára og er það forsenda bættrar skuldastöðu. Áfram verður lögð höfuðáhersla á að greiða niður skuldir,“ sagði Jónas Þór í ræðu sinni.

Auðlind fylgir ábyrgð

Kynning Harðar Arnarsonar forstjóra og Rögnu Árnadóttur aðstoðarforstjóra bar yfirskriftina „Auðlind fylgir ábyrgð“. Kom fram að starfsmenn Landsvirkjunar væru meðvitaðir um að fyrirtækið væri þjóðhagslega mikilvægt og bæri mikla ábyrgð á ýmsum sviðum. Hörður rakti hvernig Landsvirkjun hefði á undanförnum árum unnið að því að sinna því hlutverki sínu að hámarka afraksturinn af þeim auðlindum sem fyrirtækinu væri trúað fyrir, en sem fyrr segir hafa hreinar skuldir lækkað um 107 milljarða króna frá árinu 2010. Sagði hann að að öllu óbreyttu væri stefnt að því að stórauka arðgreiðslur til eiganda fyrirtækisins, ríkisins, eftir 2-3 ár.

Ragna fór yfir það hvernig Landsvirkjun legði áherslu á sjálfbæra nýtingu á þeim auðlindum sem henni væri trúað fyrir, en lagði áherslu á að í sjálfbærni yrði að líta til efnahagslegra og samfélagslegra áhrifa af vernd og nýtingu, ekki síður en áhrifa á umhverfi.

97% ferðamanna jákvæð gagnvart endurnýjanlegri orku

Þau lögðu bæði áherslu á að orkuvinnsla og ferðaþjónusta ættu góða samleið og kynntu niðurstöður nýrrar könnunar Gallup meðal erlendra ferðamanna, þar sem kom fram að 97% þeirra væru jákvæð gagnvart endurnýjanlegum orkuauðlindum á Íslandi. Þá kom fram í máli þeirra að nýting og vernd landsvæða gætu farið saman.

Hér má sjá upptöku af fundinum

Hér má nálgast glærur og erindi

Fréttasafn Prenta