Frétt

Framkvæmd skilyrða fyrir virkjunarleyfi vegna Kárahnjúkavirkjunar

18. maí 2017

Eftir um 10 ára rekstur Fljótsdalsstöðvar telur Landsvirkjun sig hafa uppfyllt skilyrði fyrir virkjunarleyfi Kárahnjúkavirkjunar að fullu eða eftir því sem mögulegt hefur verið, samkvæmt nýrri skýrslu sem birt hefur verið á vef fyrirtækisins.

Skilyrðin sem sett voru á sínum tíma voru aðallega þrenns konar; í fyrsta lagi skilyrði sem umhverfisráðherra setti í tengslum við úrskurð sinn um mat á umhverfisáhrifum, í öðru lagi fyrirheit Landsvirkjunar í matsskýrslu og kæru vegna úrskurða Skipulagsstofnunar og í þriðja lagi viðbótarskilyrði iðnaðarráðherra í virkjunarleyfi.

Skilyrðunum má skipta í rannsóknir og vöktun annars vegar og aðgerðir til að vinna gegn ætluðum umhverfisáhrifum hins vegar.

Rof og áfok

Í skýrslunni, sem er 148 síður að lengd, er gerð ítarleg grein fyrir því hvernig tókst til við að uppfylla ofangreind skilyrði. Sem dæmi má nefna skilyrði sem lutu að rofi á strönd Hálslóns og áfoki frá lónbotninum.

Landsvirkjun bregst við rofi jafnóðum og þess verður vart. Meðfram allri austurströnd lónsins eru vatnsfylltir skurðir sem hafa til þessa komið í veg fyrir að áfok hafi borist inn á gróðurlendi Vesturöræfa. Skurðirnir eru tæmdir eftir þörfum á vorin og efnið keyrt svo langt út á lónbotninn að ekki sé hætta á að það fjúki aftur. Á viðkvæmustu svæðunum í Kringilsárrana eru fokgirðingar.

Komist áfok framhjá vörnum hefur Landsvirkjun látið fjarlægja það. Verði það meira en svo að það verði allt fjarlægt má nota melgresi til að stöðva áfok eða venjulegar uppgræðsluaðgerðir til að græða það upp.

Á þeim tíma sem liðin er hafa samstarsaðilar Landsvirkjunar hjá Landgræðslu ríkisins og Umhverfisstofnun fylgst með rofi og áfoki og aðgerðum Landsvirkjunar til að fást við það. Á grundvelli þess er ströndin vöktuð nákvæmlega á hverju ári og gripið til aðgerða sé þess þörf. Vöktun og aðgerðir í Kringilsárrana eru í samræmi við stjórnunar- og verndaráætlun, sem er á forræði Umhverfisstofnunar.

Uppfok

Uppfok þótti ekki mikið áhyggjuefni, enda eru mestar líkur á að það dreifist um víðfeðm svæði, fremur en að setjast til á afmörkuðum svæðum. Settar voru upp fallgildrur til að mæla uppfok, bæði í nágrenni Hálslóns og í byggð og þar hefur aldrei orðið vart við fok sem fer yfir ásættanleg mörk.

Sem mótvægi við röskun á gróðurlendi á áhrifasvæði virkjunar utan Hálslóns og til að bæta fyrir gróðurlendi sem lenda undir lónum eða skerðast vegna annarra framkvæmda (um 38 ferkílómetrar) hefur Landsvirkjun í samvinnu við heimamenn hafið uppgræðslu á um 7000 hekturum lands (70 ferkílómetrum).

Frágangur og vöktun lífríkis
Í skýrslunni eru sýnd mörg dæmi um það hvernig til hefur tekist við frágang landsvæða eftir framkvæmdir.

Nokkur skilyrði fjalla um vöktun lífríkis. Á láglendi eiga þau rætur að rekja annars vegar til breytinga á rennsli megin fljótanna, Jökuls á Dal (minnkað rennsli) og Lagarfljót (aukið rennsli) og hins vegar til aukins gruggs í Lagarfljóti.

Grunnvatn og gróður utan Lagarfoss

Þar eru breytingar almennt ekki svo miklar að búast megi við marktækum breytingum á gróðurfari. Láglendustu svæðin við Héraðsflóa (í landi Húseyjar) höfðu blotnað svo að þar var byrjað að verða vart við breytingar. Síðar hefur komið í ljós að þessar breytingar á grunnvatnsborði tengdust því að ósinn hafði flust um 3 km til norðurs frá því sem hann var fyrir aldamót, og þegar hann var aftur fluttur á þann stað sem hann hafði lengst af verið frá miðri 20. öld, lækkaði grunnvatnsborð strax.

Skúmur og grágæs

Fylgst var með skúm og grágæs og hefur hvorug tegundanna tekið marktækum breytingum sem rekja má til breytinga af völdum virkjunar. Til eru gögn um hávellur á Lagarfljóti allt frá því um 1990. Gögnin í heild sýna að fjöldi bæði hennar og annarra andfugla er breytilegur frá ári til árs. Að hve miklu leyti má  rekja það til breytinga (gruggunar) eða almennra breytinga í viðkomandi stofnum er enn óvíst og verður vöktun haldið áfram enn um sinn.

Silungastofnar

Silungastofnar í Lagarfljóti hafa verið vaktaðir með sambærilegum hætti síðan 1998. Eftir virkjun hefur bleikjunni hrakað og urriðanum að nokkru marki einnig. Bleikja er almennt á undanhaldi á Íslandi þannig að ekki er auðvelt að skera úr um orsakir, en dregið hefur úr vexti bæði bleikju og urriða vegna minna fæðuframboðs sem gruggun orsakar. Vöktun verður fram haldið.

Hreindýr, heiðagæs og gróður

Vöktun hreindýra sem snýr að Landsvirkjun er til viðbótar við venjubundna vöktun. Hún varðaði áhrif á burð og burðarsvæði og dreifingu og far hreindýra. Sum áhrifin eru óafturkræf svo sem á burðarsvæði í Hálsi, þannig að burður færist aldrei í sama far og fyrr, en er þó í áttina eftir því sem hægt er. Hreindýrum byrjaði að fjölga um miðjan tíunda áratuginn og um aldamótin fór að bera á því að dýrin færu snemma af Vesturöræfum út á Fljótsdalsheiði. Um 2008 þegar Snæfellshjörðin var um 3000 dýr hófu dýrin að nema nýjar lendur, annars vegar norðan og hins vegar austan við venjubundin svæði Snæfellshjarðar. Samskonar atburðarás varð um miðjan áttunda áratuginn, en þá varð útrás niður á firði.

Þróunina sjálfa er varla hægt að tengja Kárahnjúkavirkjun vegna upphafs hennar fyrir tíma framkvæmda á svæðinu, en hvað sem því líður telur Landsvirkjun mikils um vert að vísindamenn geti áttað sig á orsökum slíkra sviptinga og hefur framlengt samstarfssamning um rannsóknir við Náttúrustofu Austurlands, og beinast þær m.a. að því að fylgjast með dreifingu og fari sem fyrr.

Allnokkur fjöldi hreiðurstæða heiðagæsa í lónstæði Hálslóns fór forgörðum þegar fyllt var í lónið. Vöktun heiðagæsa endurspeglar öra fjölgun í stofninum, sem hefur í raun staðið frá því á tíunda áratug seinustu aldar. Þeim hefur fjölgað svo mikið að merkja má áhrif af beit þeirra á  gróður á heiðunum upp af Fljótsdalshéraði. Af þeim sökum hafa Landsvirkjun og Náttúrustofa Austurlands ákveðið að breyta um áherslur í rannsóknum og reyna að nálgast vísbendingar um ágang þeirra á gróður.

Á árunum 2006-2008 voru settir út gróðurreitir til að fylgjast með hliðaráhrifum af virkjuninni, og var þá tekið mið af áfoki auk annarra áhrifa svo sem af hreindýrum. Það er alltaf nærtækt að tengja breytingar í dýrastofnum við fæðuframboð, og hafa Landsvirkjun og Náttúrustofa Austurlands ákveðið að endurskipuleggja gróðurvöktunina með hliðsjón af beitaráhrifum af hreindýrum og heiðagæs. Fyrsti liður í því er samstarf við norska vísindamenn um vöktun með hliðsjón af vetrarbeit.

Hér má nálgast skýrsluna Kárahnjúkavirkjun - Framkvæmd skilyrða fyrir virkjunarleyfi.

Fréttasafn Prenta