Frétt

Framkvæmdir við Hágöngulón

23. september 2014
Hágöngulón

Vinna við styrkingu flóðvars í Hágöngulóni hófst eftir að framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku var veitt af sveitarstjórn Ásahrepps.

Hvað eru flóðvör?

Í hönnunarforsendum fyrir Hágöngumiðlun var tekið tillit til mögulegra úrkomu- og leysingaflóða á vatnasviði hennar og eru stíflumannvirki og yfirfall hönnuð með tilliti til þeirra. Tvær stíflur eru í Hágöngumiðlun en hönnun gerir ráð fyrir að komi til flóðs umfram hönnunarflóð yfirfallsmannvirkja fari það um svokallað flóðvar í hjástíflu lónsins. Tilgangur flóðvara er að lágmarka skemmdir á stíflumannvirkjum í flóðum sem eru stærri en hönnunarflóð og til að draga úr stærð flóðtopps sem kæmi vegna rofs á stíflu í slíkum atburðum. Flóðvar er venjulega stuttur kafli stíflu eða lítil hjástfífla sem stendur lægra en önnur stíflumannvirki.

Styrking liður í viðbragðsáætlun Landsvirkjunar

Ákveðið hefur verið að styrkja flóðvarið með byggingu leiðgarðs neðan þess. Leiðigarðurinn minnkar líkur á stíflubroti umfram rof flóðvarsins og lækkar þannig flóðtopp úr Hágöngulóni komi til atburðar af þessu tagi. Um er að ræða tiltölulega litla framkvæmd og áætlað er að henni ljúki fyrir 20. október.

Landsvirkjun hefur yfirfarið viðbragðsáætlanir sínar og undirbúið aðgerðir fyrir mögulegar sviðsmyndir frekari eldvirkni í Vatnajökli. Líklegasta sviðsmyndin er að vatn renni til norðurs í Jökulsá á Fjöllum en viðbragðsáætlanir gera einnig ráð fyrir öðrum ólíklegri möguleikum og er styrking flóðvarsins liður í þeim undirbúningi. 

Fréttasafn Prenta