Frétt

Framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar ganga vel

16. september 2016

Framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar hafa nú staðið yfir frá því í apríl, þegar jarðvinna við meginverk framkvæmdar hófst. Aðstaða verktaka er nokkuð umfangsmikil, auk starfsmannabúða fyrir 150 manns er um að ræða skrifstofur, steypustöð, verkstæði og aðra aðstöðu sem nauðsynleg er við stórt verk. Landsvirkjun hefur einnig reist eigin vinnubúðir fyrir starfsmenn sem eftirlit hafa með framkvæmdum.

Unnið er á tveimur svæðum, á efra svæði við aðrennslisskurð og á neðra svæði við aðkomugöng og stöðvarhús annarsvegar og við frárennslisgöng og frárennslisskurð hinsvegar. Framvinda hefur verið góð. Fyrsti áfangi aðrennslisskurðar er nánast tilbúinn og innan skamms verður hægt að hefja borun lóðréttra fallganga. Á neðra svæði hafa 280 m aðkomugöng að stöðvarhúsi verið sprengd og einnig efsti hluti stöðvahússhvelfingar. Að lokinni yfirstandandi vinnu við bergstyrkingar í hvelfingunni hefst vinna við að sprengja út aðra hluta stöðvarhússins. Frárennslisgöng eru komin 70 m inn í fjall, en þau verða alls 450 m löng. Búist er við að gangavinnu, sprengingum og greftri ljúki upp úr næstu áramótum, en þá hefst vinna við að steypa upp stöðvarhúsið inni í hvelfingunni.

Í febrúar á næsta ári hefst uppsetning stálfóðringa í vatnsvegum, auk vélasamstæðu og rafbúnaðar og mun sú vinna standa fram að gangsetningu virkjunarinnar sem áætluð er í maí 2018.

Á framkvæmdasvæðinu vinna nú alls um 140  manns, en hámarki nær starfsmannafjöldi næsta vor og sumar. Samsteypa ÍAV-Marti, sem sér um byggingarverk í stækkun Búrfellsvirkjunar, er stærsti verktakinn á verkstað. Erlendir verktakar, sem annast vinnu við stálfóðringar og vélasamstæður, vinna nú þegar að smíði og undirbúningi erlendis og hefja vinnu á verkstað eftir áramót.

Þegar hefur verið gengið frá öllum stórum samningum í verkinu. Ástimpluð aflgeta stöðvarinnar er 100 MW og er framleitt með einni vélarsamstæðu. Virkjuninni er ætlað að nýta betur en hægt er í dag það vatn sem tiltækt er í vatnakerfi Þjórsár og Tungnaár, auk þess sem tilkoma hennar mun auðvelda viðhaldsvinnu sem eldri virkjun Búrfells þarfnast.

Fréttasafn Prenta