Framtíðin felst í grænni orku og nýsköpun

13.07.2020Umhverfi

"Ábyrg auðlindanýting er grunnur að velsæld okkar á Íslandi, og við búum svo vel að geta nýtt auðlindir okkar og þekkingu til áframhaldandi verðmætasköpunar, sérstaklega þar sem eftirspurn eftir vörum sem framleiddar eru með grænni orku eykst í heiminum" segir Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs.

Ábyrg auðlindanýting er grunnur að velsæld okkar á Íslandi, og við búum svo vel að geta nýtt auðlindir okkar og þekkingu til áframhaldandi verðmætasköpunar, sérstaklega þar sem eftirspurn eftir vörum sem framleiddar eru með grænni orku eykst í heiminum. Þar eru tækifæri til að fjölga stoðum undir efnahagskerfi landsins og auka verðmætasköpun, á sama tíma getum við lagt áherslu á sjálfbæra og ábyrga nýtingu.

Nýsköpun er lykilatriði í aukinni verðmætasköpun til framtíðar og hefur Landsvirkjun efnt til samstarfsverkefna um bætta nýtingu orkuauðlinda og nýsköpun í orkumálum. Þar ber helst að nefna Eim á Norðurlandi, þar sem markmiðið er að kortleggja orkuauðlindir með áherslu á nýsköpun. En ýmiskonar verkefni hafa verið unnin innan Eims og má þar nefna hugmyndasamkeppni um matvælaframleiðslu með jarðvarma, hraðal um sjálfbæra orkunýtingu og sumarskóla sem leiðir saman erlenda og íslenska háskólanema til að vinna saman að þverfaglegum verkefnum um nýtingu jarðhita.

Ný tækifæri á Suðurlandi

Einnig hefur Landsvirkjun efnt til samstarfsverkefnisins Orkídeu með Samtökum Sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu til þess að styðja við þróun og nýsköpun tengdri matvælaframleiðslu og líftækni á Suðurlandi. Í tengslum við það verkefni býður Landsvirkjun upp á viðskiptahraðal fyrir sprotafyrirtæki í matvælaframleiðslu og líftækni, en slíkur hraðall getur auðveldað sprotafyrirtækjum að finna viðskipta- og fjármögnunartækifæri. Honum er ætlað að hraða ferlinu frá því að hugmynd kviknar þar til viðskipti taka að blómstra. En gegnum slíkan hraðal geta komið sprotafyrirtæki, sem verða svo að stærri fyrirtækjum með eftirsóttum störfum og styðja þannig við fjölbreytt og framsækið atvinnulíf, sem aftur eykur hagsæld á Íslandi.

Birtist á visir.is 13. júlí 2020