Frétt

Framúrskarandi árangur Blöndustöðvar Landsvirkjunar í sjálfbærri nýtingu vatnsafls

3. mars 2014
Blöndustöð
Uppfyllir kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur í 14 efnisflokkum af 17 samkvæmt alþjóðlegum matslykli um sjálfbæra nýtingu vatnsafls

Nýleg úttekt á rekstri Blöndustöðvar Landsvirkjunar, sem unnin var samkvæmt alþjóðlegum matslykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana (Hydropower Sustainability Assessment Protocol), leiddi í ljós að Blöndustöð hefur náð framúrskarandi árangri hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls.  Á mörgum sviðum þykja starfsvenjur Blöndustöðvar þær bestu sem fyrirfinnast.

Úttektin var mjög umfangsmikil og var unnin af þremur vottuðum erlendum úttektaraðilum sem fóru yfir ítarleg gögn um rekstur stöðvarinnar. Einnig var rætt við fjölda hagsmunaðila, bæði innan Landsvirkjunar og yfir 30 einstaklinga utan fyrirtækisins, fulltrúa hagsmunaaðila, ýmissa stofnana, sveitarfélaga, fyrirtækja og félagasamtaka.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar: „Niðurstöður úttektarinnar, sem er framkvæmd af viðurkenndum alþjóðlegum fagaðilum, eru Landsvirkjun mikil viðurkenning og hvatning til að stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlindanna sem okkur er trúað fyrir. Við munum nýta okkur reynsluna af úttektinni á Blöndustöð til að gera enn betur á öðrum sviðum í rekstrinum.“

17 ólíkir rekstrarþættir

Úttektin fól í sér nákvæma skoðun á 17 ólíkum flokkum sem varða rekstur stöðvarinnar og eiga að gefa mynd af því hversu vel starfsemin fellur að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun. Sem dæmi um flokka má nefna; samskipti og samráð, stjórnun á umhverfislegum- og samfélagslegum þáttum, vatnsauðlindina, vinnuafl og vinnuaðstöðu, líffræðilegan fjölbreytileika og framandi tegundir ásamt rof og setmyndun (sjá mynd fyrir tæmandi lista efnisflokka).

Niðurstöður úttektarinnar eru að Blöndustöð uppfyllir kröfur um bestu mögulegu starfsvenju (5 af 5 mögulegum) í 14 efnisflokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar. Í þremur efnisflokkum  uppfyllir Blöndustöð kröfur um góða starfsvenju (4 af 5 mögulegum) og í þessum þremur flokkum er aðeins eitt frávik frá bestu mögulegum starfsvenjum.

Úttektin var unnin samkvæmt alþjóðlegum matslykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana (Hydropower Sustainability Assessment Protocol). Lykillinn skilgreinir hversu vel starfsemi vatnsaflsvirkjana fellur að markmiðum um sjálfbæra þróun og var formlega tekinn í notkun árið 2011. Hann byggir á stöðlum í yfir 20 flokkum sem ætlað er að lýsa sjálfbærni vatnsaflsvirkjana og beita má honum á mismunandi stigum, við frumhönnun, verkhönnun, byggingu og rekstur aflstöðva. 

Matslykillinn var unninn í samstarfi frjálsra félagssamtaka á sviði samfélag- og umhverfismála, stjórnvalda í nokkrum ríkjum og fjármálastofnana auk Alþjóða vatnsaflssamtakanna (IHA), sem hafði frumkvæði að gerð hans. Fyrsta úttektin sem unnin var hérlendis samkvæmt matslyklinum var gerð í maí 2012 en þá var fyrirhuguð Hvammsvirkjun í neðanverðri Þjórsá tekin út. Í september 2013 var svo farið í úttekt á rekstri Blöndustöðvar.

Sjá nánar á vef IHA

Um Blöndustöð

Blöndustöð er 150 MW vatnsaflsstöð á Norðvesturlandi í eigu Landsvirkjunar, sem vinnur að jafnaði um 910 GWst á ári inn á flutningskerfi Landsnets. Blöndustöð var tekin í rekstur árið 1991. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar

Nánar um alþjóðlegan matslykil um sjálfbæra nýtingu vatnsafls

Matslykillinn var unninn á árunum 2008 til 2010 í samstarfi frjálsra fjölþjóðlegra félagssamtaka á sviði samfélag- og umhverfismála (Oxfam, The Nature Conversancy, Transparancy International og WWF), stjórnvalda í nokkrum ríkjum (Kína, Þýskalands, Íslands, Noregs og Zambíu), viðskipta- og þróunarbanka (Equator Principle Financial Institutions og Alþjóðabankans) og loks Alþjóða vatnsaflssamtakanna, e. International Hydropower Association (IHA) sem hafði frumkvæði að gerð lykilsins. Fulltrúi íslenskra stjórnvalda var Guðni Jóhannesson orkumálastjóri. Landsvirkjun hefur í gegnum aðild að IHA stutt vinnu við þróun matslykilsins frá upphafi.

Umsjón og eftirliti með lyklinum er í höndum Hydropower Sustainability Assessment Council (Ráð matslykils um sjálfbærni vatnsafls).  Í ráðinu sitja fulltrúar frjálsra fjölþjóðlegra félagssamtaka á sviði samfélags- og umhverfismála, stjórnvalda, banka og fjárfesta auk eigenda vatnsaflsvirkjana. Sérstök stjórnunarnefnd gætir samningsins og fylgist með notkun hans. IHA sér um daglegan rekstur lykilsins.

Fréttasafn Prenta