Frétt

Framvinduskýrsla til Sameinuðu þjóðanna um stöðu samfélagsábyrgðar

18. mars 2015

Fyrstu framvinduskýrslu (Communication on Progress) Landsvirkjunar vegna Hnattrænna viðmiða Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð (UN Global Compact) hefur verið skilað inn til Sameinuðu þjóðanna. Markmið UN Global Compact er að stuðla að aukinni samfélagsábyrgð fyrirtækja og stofnana, efla sjálfbærni í rekstri þeirra og stuðla að ábyrgum viðskiptaháttum.

Landsvirkjun gerðist aðili að viðmiðum UN Global Compact í nóvember 2013 en aðildin felur í sér skuldbindingu til að virða og innleiða tíu reglur um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu. Aðilar að viðmiðunum gera árlega grein fyrir framvindu starfsemi sinnar sem snertir á þessum málaflokkum. 

Í þessari fyrstu framvinduskýrslu er gert grein fyrir því helsta sem Landsvirkjun hefur unnið að frá undirritun sáttmálans í nóvember 2013 og til loka þriðja ársfjórðungs 2014. Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er:

  • Landsvirkjun setur sér árlega markmið á sviði samfélagsábyrgðar og greinir frá framvindu á vef fyrirtækisins og í ársskýrslu
  • Sérstök áhersla var á að samræma viðmið UN Global Compact við innleiðingu stefnu um samfélagsábyrgð á árinu 2014
  • Landsvirkjun vann að því á árinu 2014 að auka jafnrétti kynjanna innan fyrirtækisins, að hafa áhrif á samstarfsaðila með tilliti til ábyrgra stjórnarhátta og samfélagsábyrgðar, að opnari samskiptum og auknu gagnsæi í starfsemi fyrirtækisins, að öryggismálum, umhverfismálum og miðlun þekkingar.
  • Siðareglur Landsvirkjunar sem innleiddar voru árið 2014 eru birtar í skýrslunni.

Um UN Global Compact

UN Global Compact eru útbreiddustu viðmið um samfélagsábyrgð í heiminum, en rúmlega 12.000 fyrirtæki og stofnanir í 145 löndum hafa undirritað  viðmiðin. Aðild Landsvirkjunar að UN Global Compact er gerð í framhaldi af innleiðingu á stefnu um samfélagsábyrgð sem fyrirtækið hefur unnið að undanfarin ár.

Stefna Landsvirkjunar um samfélagslega ábyrgð

Landsvirkjun setti sér stefnu um samfélagsábyrgð á haustdögum 2011 og hefur síðan unnið að innleiðingu og framkvæmd stefnunnar í fyrirtækinu. Með stefnunni hefur Landsvirkjun einsett sér að starfa eftir ábyrgum stjórnarháttum, vinna með ábyrgum viðskiptavinum og birgjum, leggja áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, eiga gott samstarf við samfélagið, stuðla að heilbrigði og öryggi starfsfólks og vinna markvisst að miðlun þekkingar og nýsköpun.

Skýrsluna sjálfa má nálgast hér

Fréttasafn Prenta