Frétt

Fréttabréf Mývatnssvæðis 2019 er komið út

2. maí 2019

Fréttabréf fyrir starfsemi Landsvirkjunar Mývatnssvæðis á árinu 2019 er komið út. Þar er m.a. greint frá endurnýjun á vélbúnaði elstu jarðvarmastöðvar á Íslandi, Gufustöðvarinnar í Bjarnarflagi, sem er nú að ljúka, en rekstur hennar með nýjum og endurbættum vélbúnaði mun hefjast á ný í lok maí. Sagt er frá eftirliti sem verður haft með loftgæðum og hljóðstigi í tengslum við gangsetninguna. Þá er greint frá víðtækri og reglubundinni vöktun á jarðhitavirkni í Bjarnarflagi, í Kröflu og á Þeistareykjum, sem hefur verið sinnt síðustu ár.

Einnig segir frá því að 17. aflstöð Landsvirkjunar, Þeistareykjastöð, fór í rekstur á liðnu ári og til að styrkja samrekstur alls Mývatnssvæðisins var í byrjun síðasta árs tekin í notkun ný þjónustumiðstöð í Kröflu með skrifstofum og svæðisstjórnstöð fyrir Bjarnarflag, Kröflu og Þeistareyki. Þá hefur verið ákveðið að hefja uppbyggingu Þeistareykjavegar syðri, en með honum kemst á heilsársleið á milli Þeistareykja og Mývatnssveitar.

Þá er greint frá því að sjálfbærniverkefninu á Norðausturlandi var ýtt formlega úr vör í maímánuði 2018. Verkefnið felst í vöktun á þróun efnahags-, samfélags- og umhverfisþátta á svæðinu frá Vaðlaheiði í vestri og til og með Tjörneshreppi í austri. Einnig er fjallað um nýjan samstarfssamning Landsvirkjunar og Myvatn Volcano Park um tilraunaverkefni í orkutengdri ferðaþjónustu. Myvatn Volcano Park hyggst skipuleggja ferðir undir nafninu Living on a Volcano og fær til þess aðgengi að vinnslusvæði Landsvirkjunar við Kröflu og Bjarnarflag.

Hér má nálgast fréttabréfið.

Fréttasafn Prenta