Frétt

Fundur um áhrif vatnsaflsvirkjana á fiskistofna

20. janúar 2016
Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, sat fyrir svörum ásamt framsögumönnum á fundi um fiska og vatnsaflsvirkjanir. Á myndinni eru Ragna og Sveinn Kári Valdimarsson frá Landsvirkjun, auk Magnúsar Jóhannssonar, Benónýs Jónssonar, Inga Rúnars Jónssonar og Sigurðar Guðjónssonar frá Veiðimálastofnun.
Guðni Guðbergsson frá Veiðimálastofnun stýrði umræðum að framsöguerindum loknum og er lengst til vinstri á myndinni. Aðrir á myndinni eru Ragna Árnadóttir og Sveinn Kári Valdimarsson frá Landsvirkjun og Magnús Jóhannsson, Benóný Jónsson, Ingi Rúnar Jónsson og Sigurður Guðjónsson frá Veiðimálastofnun.

„Í umhverfisstefnu Landsvirkjunar er lögð áhersla á að þekkja áhrifin sem af starfseminni hljótast. Í því skyni stendur Landsvirkjun að viðamiklum rannsóknum í samstarfi við óháða aðila og vöktun umhverfisþátta, meðal annars lifríki í ám og vötnum,“ sagði Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar á opnum fundi um áhrif vatnsaflsvirkjana á fiskistofna á Grand Hóteli í dag. Um 160 manns mættu á fundinn og um 100 horfðu á beina útsendingu á vef Landsvirkjunar.

„Niðurstöðurnar benda til þess að áhrifin séu margskonar, bæði góð og slæm. Við höfum reynt eftir fremsta megni að draga úr neikvæðu áhrifunum með ýmsum mótvægisaðgerðum. Þessi þekking gerir okkur kleift að þróa aðferðir og tækni til að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar í framtíðinni.“

Setið var í hverju sæti í fundarsal Grand Hótel og áhugi á umfjöllunarefninu mikill. Fundurinn var haldinn í samstarfi við Veiðimálastofnun og kynntu fjórir starfsmenn stofnunarinnar rannsóknir í ám sem tengjast vatnsaflsvirkjunum.  Að erindum loknum stýrði Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri á Veiðimálastofnun, almennum umræðum.

Í erindi Rögnu kom fram að Landsvirkjun nýtti þær auðlindir sem fyrirtækinu væri trúað fyrir af ábyrgð og með sjálfbærni að leiðarljósi. Markmiðið væri að öll umgengni væri í sátt við lífríki og náttúru.

„Fiskistofnar skipta þar miklu málu og á undanförnum áratugum hefur fyrirtækið aukið rannsóknir á fiskistofnum og vistfræði þeirra mikið,“ sagði Ragna. Niðurstöður sýndu að dregið hefði úr veiði í Lagarfljóti og virkjun í Soginu á síðustu öld hafði neikvæð áhrif á urriðastofn. „Hins vegar hefur laxastofn í Þjórsá styrkst, laxveiði í Blöndu aukist og stangaveiði hafist í Jöklu eftir að virkjað var.“

Laxastofn Blöndu hefur vaxið

„Blanda er jökulá og rennsli slíkra áa er mjög breytilegt og jökulaur hefur mikil áhrif á lífríki áa,“ sagði Sigurður Guðjónsson, fiskifræðingur og forstjóri Veiðimálastofnunar, í sínu erindi.

Við virkjun árinnar var áin stífluð og Blöndulón myndað. „Rennsli er mun jafnara en áður var og jökulaur minni þar sem hann sest til í Blöndulóni. Sólarljósið nær niður á botn, framleiðsla lífrænna efna eykst og færist upp fæðuvefinn og í seiði.  Stöðugra rennsli þýðir einnig að farvegurinn er stöðugri. Á haustin fyllist Blöndulón og áin rennur um yfirfall á Blöndustíflu, mislengi eftir árum,“ sagði Sigurður.

Fyrir virkjun Blöndu voru framkvæmdar rannsóknir á fiskstofnum árinnar að sögn Sigurðar og hafa þeir verið vaktaðir síðan.  Meðal annars væri fiskur talinn sem gengi í ánna og veiði skráð. Eftir virkjun tók fyrir göngur fisk á heiðarnar. Sjóbleikja komst ekki á sínar slóðir í Seyðisá og lax ekki í Haugakvísl og Galtará.

„Stofnar sjógöngufisks í Blöndu bæði bleikja og lax stækkuðu. Sé laxgengd borin saman við nálægar laxveiðiár sést að stofninn hefur vaxið en sýnir sömu stofnsveiflur og nálægar ár. Einnig sést að það er laxastofn Blöndu sem hefur vaxið en stofninn í þverá hennar, Svartá, er óbreyttur enda engar breytingar orðið þar,“ sagði Sigurður.

Þekkingin nýst víðar

Hann benti á að veiðin í Blöndu hefði einnig breyst.  Fyrir virkjun var veiðin að langmestu leyti bundin við svæðið neðst í ánni, neðan Ennisflúða og í Svartá. Eftir virkjun átti fiskur auðveldar með uppgöngu og veiðin dreifist því fyrr og meira upp ána. Nánast tæki fyrir veiði þegar áin fer á yfirfall.

„Sérstaka athygli vekur að efsta svæðið í Blöndu ofan við útfall virkjunar, á veiðisvæði 4, hefur vaxið. Fyrst var þar bleikja en eftir stækkun Blöndulóns 1996 nam lax land á því svæði og er enn að vaxa.  Þetta svæði stendur núna undir um 15 % af laxaframleiðslu vatnasvæðisins,“ sagði Sigurður.

Sigurður sagði að mikil þekking hefði fengist við rannsóknir á fiskstofnum Blöndu og áhrifum virkjunarinnar og hefði sú þekking nýst víðar t.d. þegar virkjað var á Austurlandi, það er Fljótsdalsvirkjun.

„Með mótvægisaðgerðum strax á hönnunarstigi, við byggingu og í rekstri virkjana er oft hægt að draga verulega úr neikvæðum áhrifum virkjana,“ sagði forstjóri Veiðimálastofnunar.

Þjórsá gefur meira af sér

Rannsóknir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu beinast helst að fiskgengum hluta Þjórsár, þar sem sjógengur fiskur fer um að sögn Benónýs Jónssonar, líffræðings á Veiðimálastofnun. Rannsóknarsvæðið nær inn að Búrfelli og áherslan hefur verið á laxinn en einnig sjóbirting.

Í erindi Benónýs á fundi Landsvirkjunar kom fram að laxveiði hefur verið vaxandi í Þjórsá á síðustu áratugum og sérstaklega eftir síðustu aldamót. Benóný sagði það koma mörgum á óvart að einn af stærstu laxastofnun landsins væri í Þjórsá. Í augum fólks væri þetta jökulá sem líklega lítið líf þrífðist í. Frá árinu 1992 hefði laxastofninn í ánni verið að stækka. Byggður var fiskstigi við fossinn Búða, sem hefði nánast tvöfaldað stærð uppeldissvæða sem aðgengileg eru sjógengnum fiskum og í kjölfarið gæfi áin meira af sér.

Í Tungnaá hafa einnig verið stundaðar metnaðarfullar rannsóknar fyrir og í kjölfar byggingar Búðarhálsvirkjunar. „Við merktum bleikju í Köldukvísl með útvarpsmerkjum til að kynnast göngumynstri áður en Sporðöldulón var myndað,“ sagði Benóný. Farið var í aðgerðir svo stofninn héldi velli bæði fyrir ofan og neðan lónið. „Þetta svæði átti að fara á þurrt en þessi sérstaki bleikjustofn í Köldukvísl er nú stórvaxin og eftirsóttur af stangaveiðimönnum.“

Lífsskilyrði versnað í Lagarfljóti

„Þetta er gríðarlega stórt vatnasvæði,“ sagði Ingi Rúnar Jónsson, fiskifræðingur á Veiðimálastofnun, þegar hann fjallaði um fiskistofna Lagarfljóts og Jökulsár á Dal. Hann sagði að aurstyrkurinn hefði aukist í Lagarfljóti og hitastig lækkað með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar. Þetta hefði haft neikvæð áhrif á lífríki Lagarfljóts og lífsskilyrði fiskistofna hefðu því versnað. Rannsóknanna sýni að silungi hafi fækkað og dregið hefði úr vexti hans.

Bleikja og urriði eru megin tegundirnar í ám á vatnasviði Lagarfljóts, þó einnig finnist þar lax og hefur laxveiði í net verið stunduð neðan við Lagarfoss. Gerðar hafa verið ýmsar tilraunir til að auka laxgengd í Lagarfljót,með takmörkuðum árangri.

Ingi Rúnar sagði að laxaseiðum hefði verið sleppt í Jökulsá á Dal eftir virkjun við Kárahnjúka. Áin er nú nánast tær mestan hluta ársins og rennslið minna en áður var. Óvissa var um áhrif yfirfallsvatnsins á lífríki árinnar, en vísbendingar væru um að yfirfallið hefði ekki eins mikil áhrif á fiskistofna eins og menn óttuðust. Nú sjáist orðið náttúruleg seiði í ánni, en það taki langan tíma fyrir fisk að nema svæðið. Veiðin teygði sig sífellt ofar í ána og áhugavert yrði að sjá þróunina á komandi árum.

Áhersla á seiðarannsóknir í Soginu

Magnús Jóhannsson, fiskifræðingur og sviðsstjóri á Veiðimálastofnun, lagði í sínu erindi áherslu á rannsóknir sem hafa verið stundaðar í Soginu, sem er bergvatnsá ólíkt t.d. Þjórsá og Blöndu. Í máli hans kom fram að rannsóknir í Soginu hefðu verið stundaðar frá árinu 1985 og veiðitölur séu til frá árinu 1947.

Megináhersla hefur verið lögð á seiðarannsóknir. Frá árinu 1997 hefur Landsvirkjun kostað þessar rannsóknir og þá  hófust smádýrarannsóknir. Magnús sagði að þær taki til þróunar á smádýralífi og seiðabúskap í ánni og hvernig það breytist milli ára. Samhliða hefði gögnum um fæðu seiða verið safnað saman og hrygningarblettir laxfiska taldir. Verið væri að kortleggja hvar fiskurinn hrygnir og í hve miklum mæli.

Þessi gögn hafa síðan verið borin saman við rennslissveiflur í Soginu. Magnús segir að af gögnunum megi sjá tengsl milli rennslissveiflna og afkomu laxaseiða. Vatnsyfirborði Þingvallavatns er haldið  stöðugu, sem hefur áhrif í Sogi því greina megi óeðlilegar sveiflur í rennsli árinnar. Fyrirvaralausar útleysingar á vatni niður Sogið, þegar hleypa þarf vatni niður eða draga úr rennsli vegna bilana í virkjunum, hefðu áhrif til aukningar á afföllum seiða. Sveiflurnar vegna virkjana væru ólíkar rennslissveiflum í náttúrunni.

„Seiðabúskapur laxaseiða hefur verið dapur í Sogi og mætti sum ár vera meiri hrygning til að halda uppi seiðabúskap,“ sagði Magnús. Hann sagði orsakasamhengi milli fyrirvaralausra útleysingja og seiðabúskapar ekki sannreynt . Gögnin sýndu þetta samhengi og þekkt væri erlendis frá að snöggar rennslissveiflur hafi áhrif á laxaseiðin.

Miklar sveiflur í Mývatni

Magnús benti á að vatnakerfi Laxár og Mývatns væri verndað með sér lögum. Ástand lífríkis Mývatns væri ekki gott, þar kæmu fram miklar sveiflur í lífríki og merki um ofauðgun. „Bleikjustofn vatnsins sem áður var ein af lykilstoðum fyrir búsetu er nú afar lítill og nær alfriðaður fyrir veiði. Í Laxá neðan Mývatns eru virkjanir í Brúarfossum en ofan þeirra er stór staðbundinn urriðastofn sem hefur notið góðs af aukinni framleiðslu Mývatns og því að þar er sleppingum fiska í veiði,“ sagði Magnús.

Í Aðaldal neðan virkjana hefði laxastofn árinnar minnkað og veiði dregist saman. Stafaði það af fækkun stórlaxa sem leitt hefði til minnkandi hrygningarstofns og nýliðunar seiða. „Þar er nú nær öllum löxum sleppt í stangveiði,“ sagði Magnús Jóhannsson.

Upptaka af fundinum

Glærukynningar framsögumanna

Fréttasafn Prenta