Frétt

Fyrirtæki þurfi að móta stefnu og koma fram með lausnir

4. maí 2017

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar hélt erindi við setningu Samorkuþings, sem stendur nú yfir á Akureyri. Erindi Harðar var hluti af málstofu um loftslagsmál og bar yfirskriftina "Heimsmarkmið 13 - Geta hnattræn viðmið orðið að raunverulegum aðgerðum?". Að mati Harðar hefur atvinnulífið á Íslandi – orkufyrirtæki og önnur fyrirtæki – ekki staðið sig nógu vel í loftslagsmálum; ekki axlað ábyrgð á því að koma með lausnir og móta stefnuna um hvernig við Íslendingar tökumst á við þetta stærsta verkefni samtímans á hagkvæman hátt.

Landsvirkjun hefur ákveðið að leggja áherslu á þrjú Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna; verndun jarðarinnar (loftslagsmál), sjálfbæra orku og jafnrétti kynjanna. Í fyrirlestri sínum fjallaði Hörður um markmið 13, "verndun jarðarinnar", en undir þann flokk falla málefni loftslagsbreytinga.

Hörður rakti ástæður þess að þjóðir heims hefðu sammælst um að draga þyrfti úr losun á hinum svokallaða loftslagsfundi, sem haldinn var í París árið 2015. Losun gróðurhúsaloftegunda gæti leitt til hlýnunar á bilinu 3,7–4,8°C á 21. öld, m.a. með þeim afleiðingum að jöklar hopuðu, en hlýnun á bilinu 1-4°C gæti ýtt af stað óafturkræfri bráðnun Grænlandsjökuls, sem myndi hækka sjávarborð um 7 metra. Markmiðið væri að hægja á loftslagsbreytingum svo vistkerfi og samfélög gætu aðlagað sig breytingunum.

Loftslagsmál eru orkumál

Loftslagsmál eru í eðli sínu orkumál, að mati Harðar, þar sem 68% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum koma frá orkuvinnslu. 82% af frumorkunotkun í heiminum eru jarðefnaeldsneyti, en á Íslandi er hlutfallið 15%.

Samkvæmt spá Alþjóða orkumálastofnunarinnar mun orkunotkun í heiminum aukast um 30% til ársins 2030. Vöxtur endurnýjanlegrar orku mun verða hlutfallslega meiri en kolefnaeldsneytis, eða tæplega 80% á þessum tíma, samkvæmt sviðsmynd sem byggir á Parísarsamkomulaginu. Því mun að mati Harðar skapast þörf fyrir umtalsverðar fjárfestingar um allan heim og eftirspurn eftir tækni, lausnum og þjónustu á sviði endurnýjanlegrar orkuvinnslu. "Með Parísarsamkomulaginu og hinum sautján Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna liggur nú í fyrsta skipti fyrir alþjóðlegur grundvöllur fyrir aukningu á hlut endurnýjanlegra orkugjafa," segir Hörður.

Hörður rakti hvernig kostnaður við endurnýjanlega orkugjafa hefur farið lækkandi að undanförnu og gert kosti á borð við sólarorku og vindorku hagkvæmari en áður. Samkvæmt fyrrnefndri spá mun vinnsla endurnýjanlegrar orku aukast úr 5.400 teravattstundum árið 2014 í 14.300 teravattstundir árið 2040 og verður hlutur sólar- og vindorku því mestur í þeim vexti.

Þessu fylgdu margar áskoranir, að mati Harðar: Í fyrsta lagi togist á náttúruverndarsjónarmið og loftslagsmál. Nýting endurnýjanlegrar orku hefði óhjákvæmilega umhverfisáhrif, þannig að segja mætti að lykillinn er erfitt mál umhverfislega, sérstaklega í nærumhverfi virkjana. Þessi orkuvinnsla þurfi líka að fara fram nærri orkugjafanum, sem kallar á flutningskerfi. Kröfur um sterkara flutningskerfi, ekki síst vegna þess að vinnsla er ekki stöðug. Mikil uppbygging á flutningskerfinu. Hvernig okkur tekst til ræðst að miklu leyti hvernig okkur tekst að draga úr kola- og olíunotkun.

Evrópa leiðandi með ETS-viðskiptakerfi með losunarheimildir

Hörður sagði að Evrópa væri leiðandi í því að innleiða reglur sem ætlað er að minnka losun á gróðurhúsalofttegundum. Kerfinu væri skipt í tvennt, annars vegar væru staðbundin markmið innan Evrópulanda, á ábyrgð stjórnvalda í hverju landi fyrir sig, hins vegar væri hið svokallaða ETS viðskiptakerfi með losunarheimildir, sem ekki er bundið við landamæri  og er á ábyrgð fyrirtækjanna sem losa. 11.000 fyrirtæki í Evrópu eru þátttakendur í ETS og markmið með kerfinu er að losun minnki um 40% til ársins 2030.

„Þannig er ETS kerfið hornsteinn í aðgerðum Evrópu í loftslagsmálum,“ sagði Hörður. Í því eru skýrir hagrænir hvatar til að draga úr losun, með því að hvetja til framþróunar á sviðum þar sem mestir möguleikar eru á að ná árangri, með hagkvæmni að leiðarljósi. Þeir sem hafa aðgang að auðlindum munu draga vagninn. Þetta þýðir að kerfið gerir ráð fyrir því að það sé vöxtur á ákveðnum stöðum en samdráttur annars staðar, en samdráttur á losun í heild,“ sagði Hörður. Hann sagði þetta kerfi vera afar skilvirkt og í raun væri meiri ástæða til að hafa áhyggjur af almenna kerfinu, sem væri á ábyrgð stjórnvalda, og árangri þess. Helsti veikleiki ETS-kerfisins væri hins vegar að það væri bundið við Evrópu, sem skapaði hættu á því að kolefnislosandi starfsemi flyttist til annarra heimshluta.

Hörður rakti hvernig orkuskipti Íslendinga, úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orku, hefðu verið drifin áfram af efnahagslegum áhrifum og hagkvæmni, einstökum náttúruauðlindum og miklum frumkvöðlakrafti einstaklinga. Framsýni með lagningu hitaveitu, og hagkvæm vinnsla á endurnýjanlegri orku, sparaði Íslendingum 110 milljarða króna á hverju ári samkvæmt úttekt Samtaka atvinnulífsins sem kynnt var á nýlegum ársfundi Samorku.

Hörður sagði að aðgerðir Íslendinga í loftslagsmálum skiptust í tvennt; innlendar aðgerðir og alþjóðlegar. Innlendar miðuðu að því að virða skuldbindingar Íslands, meðal annars með því að uppfylla Kyoto-samkomulagið, en mestu tækifærin fælust í grænni samgöngum – orkuskiptum – og framlagi einstaklinga og fyrirtækja. Alþjóðlegar aðgerðir Íslendinga gætu fyrst og fremst falist í aukinni endurnýjanlegri orkuvinnslu og útflutningi sérþekkingar í orkuvinnslu. Varðandi hið síðastnefnda nefndi hann Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, sem hafi stuðlað að aukinni vinnslu jarðvarma í þróunarlöndunum. Þá hafi Landsvirkjun Power, dótturfyrirtæki Landsvirkjunar, flutt út sérþekkingu og að auki hafi Íslendingar komið að því að reisa hitaveitu í Kína.

Mikill árangur Dana

Hörður fjallaði um aðgerðir annarra þjóða, sem væru í svipuðum sporum og við Íslendingar. „Er þá ekki nærtækast að skoða hvað Norðmenn og Kanadamenn eru að gera; þjóðir með svipaðar auðlindir og við? Eða er kannski tilefni til að skoða hvað Danir eru að gera í endurnýjanlegum orkumálum?“ spurði Hörður.

Hörður fór yfir það hvernig Danir hefðu, án þess að hafa aðgang að endurnýjanlegum orkuauðlindum að nokkru marki, markaðssett sig sem „State of Green“ („Græna ríkið“). „Hvernig getur það verið? Er „State of Green“ ekki miklu frekar Ísland?“ spurði hann.

Danir hafa að mati Harðar náð einstökum árangri í málaflokknum. Þeir flytja út orkutengdar vörur fyrir um 1.100 milljarða króna á ári, en þar af eru 70% tengd endurnýjanlegri orku. „Sem dæmi um áhersluna sem þeir leggja á þessi mál má nefna að fyrir um mánuði síðan kynntu hvorki fleiri né færri en fjórir ráðherrar í ríkisstjórn Danmerkur nýja stefnu, sem miðar að því að tvöfalda útflutning á orkutengdum vörum til ársins 2030,“ sagði Hörður.

Að síðustu sagðist Hörður vera þeirrar skoðunar að við ættum alltaf að hafa í huga að loftslagsmál væru alþjóðlegt mál. Við Íslendingar gætum stutt við baráttuna við loftslagsbreytingar og framlag okkar gæti skipt máli. Loftslagsmál væru orkumál.

„Og þá vaknar spurningin: Hvað getum við gert? Að mínu mati hefur atvinnulífið alls ekki staðið sig; ekki axlað ábyrgð á því að koma með lausnir og móta stefnuna, hvernig við tökumst á við þetta stærsta verkefni samtímans á hagkvæman hátt. Við eigum að horfa til landa á borð við Danmörku; þar liggur ábyrgðin ótvírætt hjá orkufyrirtækjunum og atvinnulífinu,“ sagði Hörður.

Fréttasafn Prenta