Frétt

Fyrirvörum aflétt í raforkusölusamningi við United Silicon

17. júlí 2014

Landsvirkjun og United Silicon hf. tilkynntu í dag að öllum fyrirvörum hafi verið aflétt í raforkusölusamningi sem fyrirtækin undirrituðu í mars síðastliðnum og hann samþykktur af stjórnum beggja félaga. 

Samkvæmt samningnum mun Landsvirkjun útvega rafmagn fyrir kísilmálmverksmiðju sem United Silicon reisir í Helguvík á Suðvesturlandi. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan hefji starfsemi á fyrri helmingi ársins 2016 og noti 35 MW af afli.

Öll skilyrði raforkusölusamningsins hafa verið uppfyllt en hefðbundnir fyrirvarar sneru meðal annars að tilheyrandi leyfisveitingum, raforkuflutningssamningum og fjármögnun.

Fjármögnun verkefnisins er tryggð og verður í höndum Arion banka í formi hefðbundinnar verkefna- og lánsfjármögnunar annars vegar og útgáfu skuldabréfa á innlendum markaði hins vegar.

United Silicon áformar að framkvæmdir við kísilmálmverksmiðjuna hefjist að fullum krafti í júlí mánuði en jarðvegsframkvæmdir eru þegar hafnar á svæðinu. Stefnt er að því að rekstur geti hafist 1. apríl 2016.

„Við höfum síðustu mánuði átt farsælt samstarf við United Silicon og staðfesting raforkusölusamningsins markar merkan áfanga í uppbyggingu kísilmálmiðnaðar á Íslandi. Við fögnum þessum tímamótum og auknum fjölbreytileika í stækkandi viðskiptamannahópi okkar. Við erum þess fullviss að kísilmálmframleiðsla á góða framtíðarmöguleika á Íslandi þar sem aðstæður henta iðnaðinum einkar vel. Verkefnið mun styrkja iðnþróun á Íslandi og einnig er jákvætt að hér er komið á uppbyggingu í Helguvík þar sem aðstæður eru góðar fyrir slíka starfsemi,“  segir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar.

„Það er stór áfangi í verkefni okkar að aflétta öllum fyrirvörum í dag. Nú erum við  endanlega lagðir af stað með verksmiðju United Silicon í Helguvík, sem hefur verið í undirbúningi undanfarin tvö ár. Með þessu skrefi er fyrirtækið að tryggja að Ísland fái þennan mikilvæga iðnað framtíðarinnar, sem mun flytja inn mikla þekkingu og tækni til landsins. Í samvinnu með evrópskum samstarfsaðilum okkar erum við þannig að tryggja stöðuga atvinnu fyrir margar kynslóðir á Reykjanesi við að framleiða hreinan kísil á Íslandi. Við þökkum lykilaðilum á Íslandi fyrir þann mikla stuðning sem við höfum fundið og þá sérstaklega frá Landsvirkjun og Arion banka, sem hafa veitt verkefninu ómetanlegan stuðning,“ segir Magnús Garðarsson nýráðinn framkvæmdastjóri United Silicon hf. í Helguvík.

„Það er virkilega ánægjulegt fyrir Arion banka að koma með svo afgerandi hætti að jafn stóru og mikilvægu uppbyggingarverkefni sem bygging kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík er. Verkefnið styrkir útflutning frá landinu og skapar auknar gjaldeyristekjur auk þess sem það hefur jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu á svæði sem hefur átt undir högg að sækja í þeim efnum,” segir Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arion banka.

Um Landsvirkjun

Landsvirkjun var stofnuð árið 1965 og er orkufyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar. Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Fyrirtækið vinnur um 75% allrar raforku á Íslandi úr endurnýjanlegum orkugjöfum, vatnsafli, jarðvarma og vindi. Um leið er fyrirtækið leiðandi í sjálfbærri nýtingu orkugjafa og stuðlar að aukinni þekkingu, nýsköpun og tækniþróun.

Um United Silicon hf.

United Silicon hf. er félag stofnað af hópi aðila í evrópska kísilmálmiðnaðinum sem á frumkvæði að því að setja upp nýja kísilmálmverksmiðju til að mæta vaxandi eftirspurn viðskiptavina sinna í Evrópu. Eftir að ákvörðun um að setja upp verksmiðju á Íslandi var tekin, keypti félagið allt hlutafé í Stakksbraut 9 ehf. sem á lóð í Helguvík og umhverfismat fyrir reksturinn, samþykkt af Skipulagsstofnun í maí 2013. Félaginu var svo veitt starfsleyfi af Umhverfisstofnun 3. júlí sl. eða tveimur árum eftir að vinna að umhverfismati hófst. United Silicon hf. stígur með þessu móti inn í fullþróað verkefni og gerir raforkusamningur við Landsvirkjun félaginu kleift að hefja byggingu verksmiðjunnar.

Fréttasafn Prenta