Frétt

Fyrirvörum aflétt í raforkusölusamningi við PCC BakkiSilicon

8. júní 2015
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar

Nýr kaupandi bætist í hóp viðskiptavina Landsvirkjunar

Landsvirkjun tilkynnti í dag að öllum fyrirvörum hafi verið aflétt í raforkusölusamningi sem fyrirtækið og PCC BakkiSilicon hf. (PCC) undirrituðu í mars síðastliðnum. Samningurinn nær til sölu rafmagns til kísilmálmverksmiðju, sem PCC mun reisa á Bakka við Húsavík.

Samkvæmt samningnum mun Landsvirkjun útvega rafmagn fyrir kísilmálmverksmiðju PCC, sem áætlað er að hefji starfsemi á árinu 2017 og framleiði í fyrsta áfanga allt að 36 þúsund tonn af kísilmálmi og noti 58 MW af afli.

Öll skilyrði raforkusölusamningsins hafa nú verið uppfyllt en fyrirvarar sneru meðal annars að því að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) myndi ekki gera athugasemdir við nýja samninginn, tilheyrandi leyfisveitingum, raforkuflutningssamningum og fjármögnun. PCC hefur nú tilkynnt að fjármögnun verkefnisins sé tryggð, ábyrgðir gagnvart Landsvirkjun eru því orðnar virkar. Raforkusölusamningur fyrirtækjanna er því orðinn fullgildur og bindandi fyrir báða aðila.

„Aflétting fyrirvara í samningi okkar við PCC markar merkan áfanga í raforkusölu Landsvirkjunar en með honum er staðfest að nýr viðskiptavinur bætist við stækkandi og sífellt fjölbreyttari viðskiptavinahóp Landsvirkjunar. Landsvirkjun hefur átt gott samstarf við PCC um gerð þessa samnings og ánægjulegt að hann sé nú í höfn eftir langt ferli. Samningurinn er einnig mikilvægur fyrir framtíðaruppbyggingu iðnaðar á Bakka við Húsavík og við erum þess fullviss að kísilmálmframleiðsla á góða framtíðarmöguleika þar sem aðstæður henta iðnaðinum einkar vel,“  segir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar.

Sjá nánari umfjöllun um undirritun rafmagnssamnings við PCC BakkiSilicon

Fréttasafn Prenta