Frétt

Fyrstu vindmyllur Landsvirkjunar gangsettar

14. febrúar 2013
Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og Margrét Arnardóttir, verkefnastjóri vindorku

Fyrstu vindmyllur Landsvirkjunar voru gangsettar í glampandi sól og hvínandi roki við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 14. febrúar. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, setti athöfnina. Fulltrúi framleiðandans, Eike Gentsch sölustjóri Enercon, afhenti Landsvirkjunar vindmyllurnar formlega til rekstrar. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, lét gangsetja vindmyllurnar með símtali í höfuðstöðvar Enercon þar sem hann gaf heimild til gangsetningar þeirra.

Hörður Arnarson sagði við tilefnið að eftirspurn eftir endurnýjanlegum orkugjöfum í heiminum hafi stóraukist og að ákveðin tímamót séu í orkuvinnslu á Íslandi við tengingu vindmyllanna tveggja inn á raforkukerfi Íslendinga. „Litið til framtíðar gæti vindorka orðið þriðja stoðin í orkukerfi Landsvirkjunar, ásamt vatnsafli og jarðvarma. Áhugavert er að athuga hvernig vindorka nýtist Íslendingum í samspili með vatnsorku en sveigjanleiki vatnsorkunnar getur aukið verðmæti vindorkunnar“.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sagðist í ræðu sinni fagna þessu framtaki Landsvirkjunar sem hann vonaði að myndi takast vel. Ráðherra hrósaði framsýni og metnaði fyrirtækisins með þessu verkefni og kvað Landsvirkjun vera til fyrirmyndar að feta þessa braut. Að lokinni ræðu lét ráðherra gangsetja vindmyllurnar.

Rauntíma upplýsingar um raforkuvinnsluna, vindstig og vindátt á Hafinu, fyrir ofan Búrfell þar sem vindmyllurnar eru staðsettar, eru birtar á heimasíðu Landsvirkjunar og gefst þannig almenningi tækifæri til að fylgjast með þeim frá degi til dags. Sjá nánar hér.

 

Nánar um vindmyllurnar:

Vindmyllurnar tvær eru hluti af rannsóknar- og þróunarverkefni á hagkvæmni vindorku. Á næstu misserum munu rannsóknir snúast um rekstur við séríslenskar aðstæður svo sem: áhrif af ísingu, skafrenningi, ösku, sandfoki ásamt áhrifum á dýralíf og íslenskt samfélag. Auk þess verður til almenn rekstrarreynsla sem byggja má á, ef farið verður í uppbyggingu á vindorku á Íslandi.

Líkt og öll stór mannvirki hafa vindmyllur óhjákvæmileg áhrif á ásýnd umhverfisins. Varanleg áhrif á heildarásýnd umhverfisins eru þó ekki mikil í samanburði við aðra virkjanakosti. Vindmylla sem tekin er niður skilur nánast engin ummerki eftir sig.

Þetta svæði, sem gengur undir nafninu „Hafið“, var valið þar sem náttúruleg vindgöng liggja um svæðið og vindhraði í 55 metra hæð er að jafnaði 10-12 metrar á sekúndu. Jarðstrengur lá fyrir um svæðið sem vindmyllurnar hafa nú verið tengdar við eru þær nálægt starfsstöð Landsvirkjunar í Búrfelli. Starfsfólk Búrfellsvirkjunar mun annast daglegan rekstur vindmyllanna.

Vindmyllurnar eru framleiddar af þýska fyrirtækinu Enercon en undirritaðir voru samningar um kaup á þeim í júní á síðasta ári. Enercon sérhæfir sig í framleiðslu gírlausra vindmylla til notkunar á landi. Kostur gírlausra vindmylla er sá að rafallinn framleiðir rafmagn við færri snúninga en við það eykst líftími vélarinnar og orkutap og hljóðmengun minnkar.

Vindmyllurnar eru hvor um sig 900 kW en samanlögð áætluð raforkuvinnsla þeirra er um 5,4 GWst á ári. Sú orkuvinnsla svarar orkuþörf um 1.200 heimila. Vindmyllurnar ná fullu afli við 15 metra vindhraða á sekúndu en stöðvast af öryggisástæðum ef vindur fer upp fyrir 34 metra á sekúndu.

Mastur vindmyllanna er stálrör sem mjókkar upp. Þvermál við jörð er um 3,5 metrar og tæpir 2 metrar við topp. Efst á mastrinu er framleiðsluhluti rafstöðvarinnar, hverfill og rafali. Í neðsta hlutanum er ýmiss stjórnbúnaður, rofar og spennar.

Hæð mastursins er 55 metrar og hver spaði er um 22 metrar á lengd. Þegar spaðinn er í efstu stöðu er því heildarhæð vindmyllunnar 77 metrar sem er í aðeins meiri hæð en Hallgrímskirkjuturn.

 

Byggingarsaga tilraunavindmyllanna tveggja

Landsvirkjun sótti um virkjunarleyfi fyrir vindmyllunum til Orkustofnunar í byrjun júní á síðast ári. Í lok sama mánaðar var undirritaður samningur við Enercon um kaupin. Sveitastjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps auglýsti formlega breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna framkvæmdarinnar í júlí. Í september veitti Orkustofnun virkjunarleyfið og forsætisráðuneytið sömuleiðis þar sem framkvæmdarsvæði er þjóðlenda.

Í október veitti skipulags- og byggingarfulltrúaembætti uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps byggingarleyfi og var þá strax hafist handa við jarðvinnu og slóðagerð sem var í höndum Ístaks. Samið var við Hnit verkfræðistofu um eftirlit með framkvæmdum og við þýska fyrirtækið WKA um gerð undirstaðna, en þær voru steyptar í lok október.

Vindmyllurnar komu til landsins með skipum Thorship um miðjan nóvember og voru fluttar í lok þess mánaðar á Hafið. Teymi frá Enercon ásamt kranamönnum frá Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar sáu um uppsetninguna. Vindmyllurnar voru settar upp á aðeins nokkrum dögum í byrjun desember og í kjölfarið hófst vinna við rafmagns- og ljósleiðaratengingar og uppsetningu rofastöðvar undir stjórn Gunnars Hafsteinssonar og Orkufjarskipta. Í lok janúar voru þær svo tengdar við net og hafa síðan verið gerðar forrekstrarprófanir af hálfu framleiðandans.

Vindmyllurnar voru formlega gangsettar 14. febrúar 2013 og vinna þær nú raforku inn á íslenskt raforkukerfi.

Fréttasafn Prenta