Frétt

Gagarín hlýtur virt alþjóðleg verðlaun fyrir orkusýningu Landsvirkjunar

17. ágúst 2016

Gagarín hefur hlotið hin virtu Red Dot-hönnunarverðlaun í flokki upplýsingahönnunar fyrir sýningu Landsvirkjunar „Orka til framtíðar“ í Ljósafossstöð. Þetta eru önnur erlendu verðlaunin sem sýningin hlýtur á þessu ári, því hún hlaut gullverðlaun í flokki stafrænnar hönnunar í samkeppni á vegum European Design Awards fyrr á árinu. Gagarín og Tvíhorf arkitektar eru hönnuðir sýningarinnar.

Þúsund innsendingar frá 46 löndum bárust í keppnina, en verðlaunin eru á meðal virtustu hönnunarverðlauna í heimi. Í dómnefndinni sitja aðilar frá 57 lönd­um, þar á meðal hönn­un­ar­sér­fræðing­ar, há­skóla­pró­fess­or­ar og blaðamenn.

Hér má fræðast nánar um sýninguna. Á henni veita fjölbreytt og fræðandi sýningaratriði orkuboltum á öllum aldri tækifæri til að safna saman rafeindum, dæla úr lónum, fanga vindinn og lýsa upp heiminn á 120 árum.

Ljósafossstöð er á Sogssvæðinu við Úlfljótsvatn og er í um 50 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík. Sýningin er opin alla daga í sumar, frá 10 til 17.

Fréttasafn Prenta