Frétt

Gagnaver í leit að staðsetningu

2. júní 2015

„Gagnaver í leit að staðsetningu“ er yfirskrift opins fundar Landsvirkjunar um þarfir gagnaversiðnaðarins. Fundurinn verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík á föstudaginn, þann 5. júní. Gagnaversiðnaðurinn er ein þeirra atvinnugreina sem hafa sýnt Íslandi aukinn áhuga síðustu ár, en ýmislegt ræður staðarvali gagnavera fyrir utan raforkuöryggi og hreina orku.

Fundurinn hefst með skráningu og morgunveitingum kl. 8.30, en dagskráin hefst kl. 9.00 og stendur til kl. 10.30.

Philip Schneider, forseti Site Selectors Guild, verður með framsögu á fundinum. Hann hefur áratuga reynslu í gagnaversiðnaði og gjörþekkir þarfir atvinnugreinarinnar. Schneider hefur komið að vali á gagnaverum um allan heim fyrir fjölda alþjóðafyrirtækja eins og Bank of America, Morgan Stanley, Toyota, Deloitte, Paypal, The Gap, Johnson & Johnson, Nestlé o.fl. Hann hefur jafnframt veitt stjórnvöldum ráðgjöf um þarfir gagnavera.

Eftir framsögu Philip Schneider verða pallborðsumræður þar sem rætt verður frekar um þarfir gagnaversiðnaðarins. Þátttakendur verða Philip Schneider, Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, Halldór Þorkelsson, framkvæmdastjóri hjá PwC, Guðbrandur R. Sigurðsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá Opnum kerfum og Örn Orrason, yfirmaður sölu- og viðskiptaþróunar hjá Farice. Elínrós Líndal, viðskiptastjóri Samtaka gagnavera á Íslandi, stýrir fundi og pallborðsumræðum.

Skráning á fundinn fer fram hér.

Fundurinn verður einnig sýndur í beinni útsendingu á Youtube rás Landsvirkjunar, www.youtube.com/landsvirkjun

Fréttasafn Prenta