Frétt

Gagnkvæm ánægja með útgáfu skuldabréfs

29. október 2015
Frá vinstri: Rafnar Lárusson, fjármálastjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, og Freyr Þórðarson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Arion banka.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, handsöluðu nýverið samning um útgáfu skuldabréfs Landsvirkjunar í samstarfi við Arion banka. Skuldabréfið er til 7 ára og fjárhæðin er 50 milljónir Bandaríkjadala eða sem samsvarar 6,3 milljörðum íslenskra króna. Bréfið ber 4,27% fasta vexti sem greiðast tvisvar á ári en höfuðstóllinn greiðist í einu lagi á lokagjalddaga. Landsvirkjun hefur heimild til uppgreiðslu að hluta eða að fullu á lánstímanum.

Skuldabréfaútgáfan er gerð undir EMTN (Euro Medium Term Note) ramma félagsins án ríkisábyrgðar og hefur verið skráð í kauphöllinni í Luxemborg.

 Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Við höfum átt skilvirkt og gott samstarf við Arion banka um útgáfu þessa skuldabréfs. Andvirðið munum við nýta til almennrar fjármögnunar Landsvirkjunar. Fyrirtækið stendur vel og hjá okkur eru margvísleg spennandi verkefni framundan. Til að mæta aukinni eftirspurn erum við að skoða fjölbreytta virkjunarkosti sem gætu aukið orkuvinnslugetu og þar með verðmætasköpun Landsvirkjunar.“

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka:

„Það er stefna okkar að vinna með öflugum og framsæknum fyrirtækjum að áhugaverðum verkefnum og skuldabréfaútgáfa Landsvirkjunar fellur vel að þeirri stefnu. Við höfum að undanförnu unnið að bættu aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum fyrir bankann og viðskiptavini okkar. Það framtak nýtist íslensku efnahagslífi almennt, enda skiptir aðgengi að erlendu lánsfé á hagstæðum kjörum miklu fyrir áframhaldandi uppbyggingu.“

Fréttasafn Prenta