Frétt

Göngufiskar í Þjórsá rannsakaðir

23. maí 2013

Sveitastjórn Skeiða og Gnúpverjahrepps samþykkti í þann 7. maí síðastliðinn að koma fyrir fiskiteljara í Kálfá. Um að ræða rannsóknarverkefni Landsvirkjunar og Veiðimálstofnunar til að geta metið stofnstærð á göngufiski í Þjórsá og hliðarám.

Veiðimálastofnun gerði tillögu um þessar mælingar en talið var að vantaði frekari gögn um stofnstærð göngufiska. Gert er ráð fyrir að rekstur teljara verði í að minnsta kosti 10 – 15 ár.

Unnið hefur verið að verkefninu í samráði við hagsmunaaðila og Veiðimálstofnun en öll leyfi hagsmunaaðila eru fengin og beðið er eftir útgáfu framkvæmdaleyfis sveitastjórnar.

Nánar um feril málsins

Landsvirkjun og Veiðimálastofnun ákváðu á árinu 2012 að auka rannsóknir á stofnstærð laxa í Þjórsá. Til þess að fá sem bestar niðurstöður var talið nauðsynlegt að fá mat á fjölda laxa og veiðihlutfall í Kálfá, en það verður best gert með rafrænum fiskteljara, sem telur og tekur hreyfimyndir af hverjum fiski er um hann fer. Undanfarið hefur verið kannað hvar heppilegast væri að koma slíkum teljara fyrir og niðurstaða forráðamanna Veiðifélags Kálfár og Veiðimálastofnunar var að sá staður væri nokkru neðan við gömlu brúna að Stóra Hofi. Sett verður upp fyrirstaða með göngurás  fyrir uppgöngufiska og niðurgönguseiði og teljara komið fyrir í rásinni. Með talningu og myndun fiska ætti að vera hægt að greina hvort laxar eru veiðiuggaklipptir en við örmerkingu seiða er veiðiugginn klipptur af. Með því að finna hlutfall merktra laxa í Kálfá og bera það saman við hlutfall merktra fiska í netum neðarlega í Þjórsá er kominn grunnur til að reikna stærð laxgöngu úr sjó í Þjórsá.. Jafnframt gefst tækifæri á að meta hve mikið svæðið ofan Búða gefur af laxi þar sem veiðihlutfall verður þekkt og veiðin bætist þá við þann fjölda sem talinn er upp stigann við Búða. Með endurtekinni mælingu fleiri ára fæst breytileiki milli ára og betra mat.

Gert er ráð fyrir að mannvirki og búnaður verði í rekstri í að minnsta kosti 10-15 ár til að sem best niðurstaða fáist. Verði virkjanir í neðri hluta Þjórsá byggðar munu mælingar framkvæmdar bæði fyrir og eftir virkjunarframkvæmdir en þannig fengist nákvæm mæling á raunverulegum breytingum á stofni göngufiska. Að rekstrartíma loknum er gert ráð fyrir að mannvirki verði fjarlægð úr ánni í samráði við landeigendur og Veiðifélag árinnar. 

Stundaðar hafa verið rannsóknir á fiski í Þjórsá um árabil en hægt er að kynna sér rannsóknir og annað útgefið efni varðandi fiskistofna í Þjórsá frekar á vefsvæði Landsvirkjunar hér: Fiskistofnar í Þjórsá

Fréttasafn Prenta