Frétt

Græn skírteini eru tækifæri fyrir Ísland

26. nóvember 2018

Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar, og Einar Sigursteinn Bergþórsson, viðskiptastjóri og sérfræðingur, rituðu eftirfarandi grein sem birtist í Bændablaðinu 15. nóvember 2018.

Eitt mest aðkallandi viðfangsefni mannkyns er að stemma stigu við loftslagsbreytingum og ein áhrifaríkasta leiðin til þess er að auka raforkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Til að hvetja til umhverfisvænni raforkuvinnslu hefur raforkunotendum verið gert kleift að kaupa græn skírteini af þeim framleiðendum sem sannanlega vinna raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Græn skírteini eru staðfesting á því að kaupandi raforkunnar hafi stutt við slíka orkuvinnslu.

Hið opinbera heiti grænna skírteina, „upprunaábyrgðir“ (e. „Guarantees of Origin“), er á vissan hátt villandi þar sem kerfið byggir á því að græni þáttur raforkuvinnslunnar er gerður að sjálfstæðri söluvöru, óháð afhendingu eða uppruna orkunnar.

Kerfið gerir neytendum sem er umhugað um loftslagsmál kleift að styðja við endurnýjanlega orkuvinnslu á þeim svæðum þar sem hún er almennt talin hagkvæm. Kerfið er því ekki hvítþvottur, heldur áhrifarík leið til að nýta mátt neytenda til að styðja við baráttuna gegn loftlagsáhrifum.

Algengur misskilningur er að kola- og kjarnorkuver séu kaupendur að grænum skírteinum, en í rauninni eru það raforkukaupendur. Stærstu kaupendur skírteinanna eru til að mynda fyrirtæki á neytendavörumarkaði, sem og heimili.

Þátttakan tryggir hagsmuni Íslands

Tilkoma kerfisins þar sem græn skírteini ganga kaupum og sölum hefur reynst öflugur stuðningur við orkufyrirtæki sem selja endurnýjanlega orku, eins og  Landsvirkjun. Þannig hafa orkufyrirtækin aukin tækifæri til þess að viðhalda og byggja upp endurnýjanlega orkuvinnslu sína. Þetta er í samræmi við tilgang kerfisins. Með því að auka hlut endurnýjanlegrar raforkuvinnslu í heiminum leggur Landsvirkjun sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Sala á grænum skírteinum hefur í för með sér að Landsvirkjun, og þar með íslenska þjóðin, fær í sinn hlut aukin verðmæti af endurnýjanlegum orkulindum landsins. Á árinu 2018 stefnir í að tekjur Landsvirkjunar af sölu skírteinanna verði um 600 milljónir króna.

Ísland er land endurnýjanlegrar orku

Þar sem öll orka hérlendis er unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum, er Ísland eftir sem áður land endurnýjanlegrar orku.  Í öllu kynningarstarfi fyrir Ísland er áfram heimilt að nýta þá staðreynd að raforkuframleiðsla á Íslandi er 100% með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þátttaka í kerfinu um græn skírteini breytir engu þar um og ímynd landsins sem land endurnýjanlegrar orku er sterkari en áður.

Íslensk fyrirtæki geta nýtt sér græn skírteini

Landsvirkjun hefur verið þátttakandi á markaði með græn skírteini undanfarin ár. Fyrir nokkrum árum ákvað fyrirtækið að láta slík skírteini fylgja með allri raforku sem það selur á heildsölumarkaði. Þetta fyrirkomulag gerir sölufyrirtækjunum kleift að afhenda heimilum og fyrirtækjum upprunavottaða raforku.

Umhverfisvitund neytenda víða um heim fer vaxandi, sem þýðir að nú er hægt að fá hærra verð en ella fyrir umhverfisvænar vörur og þjónustu. Erlendis er nú í auknum mæli gerð krafa um framvísun grænna skírteina. Því ætti þátttaka Íslands á þessum markaði að auðvelda íslenskum fyrirtækjum að markaðssetja og selja vörur sínar á alþjóðlegum mörkuðum. Þetta er sóknartækifæri fyrir íslensk fyrirtæki, sem vonandi fara nú að nýta þennan möguleika í meiri mæli en áður.

Fréttasafn Prenta