Frétt

Grænvarpið komið í loftið

12. október 2020

Grænvarpið, hlaðvarp Landsvirkjunar um grænar lausnir, er komið í loftið. Hægt er að hlýða á það og gerast áskrifandi á öllum helstu hlaðvarpsveitum, en þættina er einnig að finna hér á vefsíðunni, á slóðinni www.landsvirkjun.is/fyrirtaekid/graenvarpid.

Í Grænvarpinu er fjallað um sjálfbæra þróun og bætta nýtingu auðlinda, hvort sem um er að ræða vinnslu endurnýjanlegrar orku eða aðra þætti hringrásarhagkerfisins. Rætt er við sérfræðinga, áhugafólk og frumkvöðla um græna nýsköpun og tækifæri á því sviði.

Tveir þættir eru komnir í loftið. Í fyrsta þætti er rætt við Auði Nönnu Baldvinsdóttur um fyrirætlanir Landsvirkjunar um að hefja framleiðslu á grænu vetni við Ljósafossstöð, en grænt vetni er talið munu leika lykilhlutverk í orkuskiptum í Evrópu og víðar. Í öðrum þætti fræðir Sigurður H. Markússon hlustendur um Orkídeu, nýsköpunarverkefni sem snýst um uppbyggingu orkutengdra tækifæra framtíðarinnar á Suðurlandi, til dæmis við matvælaframleiðslu og líftækni, sjálfbæra nýtingu auðlinda og sprotastarfsemi.

Ráðgert er að Grænvarpið komi út á tveggja vikna fresti.

Fréttasafn Prenta