Frétt

Grunnur lagður að auknum arðgreiðslum

2. nóvember 2017
Hörður Arnarson segir að stefnt sé að því að byrja að auka arðgreiðslur hægt og rólega, þegar á næsta ári.
Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri sagði að við Íslendingar værum í öfundsverðri stöðu, með 100% endurnýjanlega orkuvinnslu, sem aðrar þjóðir legðu sig allar fram um að auka hjá sér.
Ásbjörg Kristinsdóttir, yfirverkefnisstjóri stækkunar Búrfellsvirkjunar, fjallaði um þá bættu nýtingu auðlindarinnar sem fylgir þeirri framkvæmd.
Úlfar Linnet, forstöðumaður rannsóknadeildar, greindi frá því hvernig bráðnun jökla hefur haft áhrif á íslenska orkukerfið.

Samanlagðar arðgreiðslur Landsvirkjunar á árunum 2020-2026 geta numið um 110 milljörðum króna, að því er fram kom í máli Harðar Arnarsonar forstjóra á opnum haustfundi fyrirtækisins í Hörpu í dag. Hann segir að stefnt sé að því að byrja að auka arðgreiðslur hægt og rólega, þegar á næsta ári.

Hörður rakti hvernig lagður hefur verið grunnur að þessari auknu arðgreiðslugetu í rekstri fyrirtækisins. Þar má nefna:

  • endursamninga við alþjóðlega stórnotendur
  • nýja viðskiptavini og mikla eftirspurn
  • byggingu tveggja nýrra virkjana án aukningar skulda
  • framkvæmdir og aðgerðir sem bætt hafa nýtingu raforkukerfisins
  • skynsamlegar fjárfestingar í viðhaldi aflstöðva, sem gert hafa að verkum að ekki er uppsöfnuð fjárfestingarþörf og
  • lækkandi fjármagnskostnað, sem helgast af lægri skuldum og bættu lánhæfismati
  • Á fundinum fóru sérfræðingar Landsvirkjunar yfir það hvernig virði endurnýjanlegrar orku hefur aukist að undanförnu, hér heima og í öllum heiminum, í kjölfar vitundarvakningar um umhverfis- og loftslagsmál.

Bráðnun jökla hefur aukið vinnslugetu

Úlfar Linnet, forstöðumaður rannsóknadeildar, greindi frá því hvernig bráðnun jökla hefur haft áhrif á íslenska orkukerfið, en á síðustu 25 árum hefur Vatnajökull að jafnaði lækkað um einn metra árlega. Á sama tíma hefur innrennsli í lón aukist og vinnslugeta virkjana sömuleiðis, en miðað við spár um þróun loftslags mun vinnslugetan aukast verulega á næstu 30 árum.

Bætt nýting og lágmarksáhrif á umhverfið

Ásbjörg Kristinsdóttir, yfirverkefnisstjóri stækkunar Búrfellsvirkjunar, fjallaði um þá bættu nýtingu auðlindarinnar sem fylgir þeirri framkvæmd. Um 14% af rennsli Þjórsár fara nú framhjá gömlu stöðinni, en það jafngildir um 410 gígavattstundum á ári hverju. Nýja virkjunin mun nýta þetta framhjárennsli að stórum hluta og framleiða um 300 gígavattstundir á ári, en nýta sama miðlunarlón, flutningskerfi og tengivirki og hafa þannig lágmarksáhrif á umhverfið, enda er stöðvarhúsið grafið inn í fjallið.

Viðhald leggur grunn að góðum rekstri

Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri orkusviðs, rakti viðamikið starf við viðhald og endurbætur á aflstöðvum og veitumannvirkjum Landsvirkjunar, sem skilað hefur góðri stöðu og lágmarksþörf á fjárfestingum í viðhaldi. Aflstöðvar Landsvirkjunar eru 16 talsins, með samtals 42 vélum og eignirnar í viðhaldskerfinu eru 29.000 talsins. Um 5.000 verk í skoðunum og viðhaldi eru að meðaltali unnin árlega og að auki 50 stór viðhalds- og endurbótaverkefni. Heildar endurstofnverð aflstöðva og veitumannvirkja er um 600 milljarðar íslenskra króna og árlegur kostnaður við skoðanir, viðhald og stærri verkefni er að meðaltali 5,5 milljarðar króna.

Mikil tækifæri í samstarfi ferðaþjónustu og orkuvinnslu

Í tölu sinni sagði Guðrún Ólafía Brynleifsdóttir, verkefnisstjóri á samskiptasviði, frá því að samkvæmt niðurstöðum könnunar Gallup meðal erlendra ferðamanna væru 97% þeirra jákvæð í garð endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi. Guðrún greindi frá rannsókn Háskóla Íslands, sem leiddi í ljós að langflestir ferðamenn við Blönduvirkjun töldu ósnortin víðerni vera hluta af aðdráttarafli svæðisins, þrátt fyrir að þar mætti sjá virkjunarmannvirki á borð við lón, stíflur, veituskurði, vegi og raflínur. Guðrún taldi að í ljósi þessa viðhorfs ferðamanna til endurnýjanlegrar orku væru mikil sóknarfæri í samstarfi ferðaþjónustuaðila og orkuvinnsluaðila.

Varfærin uppbygging jarðvarmanýtingar

Valur Knútsson fjallaði um sjálfbæra nýtingu jarðvarma á Þeistareykjum, en hann er yfirverkefnisstjóri byggingar Þeistareykjavirkjunar. Í máli hans kom fram að öll áhersla er lögð á varfærna uppbyggingu jarðvarmanýtingar á svæðinu. Rannsóknir á jarðhitasvæðinu á Þeistareykjum teygja sig áratugi aftur í tímann og við mat á umhverfisáhrifum var miðað við allt að 200 MWraf virkjun, en núverandi verkefni snýst um 90 MWraf virkjun í tveimur áföngum. Við upphaf framkvæmda lá fyrir að tiltækt gufuafl jafngilti 58 MWraf, en með viðbótarborunum hefur það nú verið aukið umtalsvert. Áhersla á umhverfismál hefur verið í forgangi og meðal annars unnið að uppgræðslu beitarlands sem mótvægi við land sem farið hefur undir mannvirki. Samvinna við hagsmunaaðila hefur verið mikil og góð við sveitarfélög, fyrirtæki og íbúa nærsamfélagsins.

Kolefnishlutleysi árið 2030

Umhverfisstjóri Landsvirkjunar, Ragnheiður Ólafsdóttir, rakti hvernig fyrirtækið stefnir að því að verða kolefnishlutlaust árið 2030. Kolefnisspor Landsvirkjunar er nú um 3,5 grömm af koltvísýringi á hverja kílóvattstund, en sem dæmi má nefna að spor Fljótsdalsstöðvar er um 1,5 grömm á kílóvattstund, borið saman við 700 grömm eða þaðan af meira af orkuvinnslu með kolum eða olíu.

Endurnýjanleg orka leikur lykilhlutverk í loftslagsmálum

Þórólfur Nielsen, forstöðumaður viðskiptagreiningar, kynnti stöðu endurnýjanlegrar orku á heimsvísu. Fram kom í máli hans að raforkuvinnsla veldur um 40% af losun koltvísýrings á heimsvísu, einkum vegna þess að tveir-þriðju raforkunnar koma frá brennslu jarðefnaeldsneytis. Raforkumál eru því í brennidepli loftslagsaðgerða og stór þáttur í þeim aðgerðum hlýtur að vera aukning á vinnslu endurnýjanlegrar orku.

Endurnýjanleg orkuvinnsla skapar tækifæri

Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs, fjallaði um markaðssetningu endurnýjanlegrar orku. Í frásögn hennar kom fram að fyrirtæki leggja sífellt meiri áherslu á sjálfbærni, en 112 leiðandi fyrirtæki í heiminum hafa í sameiningu sett sér það markmið að nota einungis endurnýjanlega orku, undir hattinum „RE100“. Birna sagði að endurnýjanleg orkuvinnsla væri farin að skapa mörg tækifæri fyrir Landsvirkjun, en sem dæmi mætti nefna að eitt af RE100 fyrirtækjunum, BMW, hefði auglýst að samstarf við Verne Global gagnaverið hér á landi hefði dregið úr losun BMW á koltvísýringi um rúmlega 3,5 tonn á ári.

Sjálfbærni er lykilatriði

Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri sagði að við Íslendingar værum í öfundsverðri stöðu, með 100% endurnýjanlega orkuvinnslu, sem aðrar þjóðir legðu sig allar fram um að auka hjá sér. Það þýddi þó ekki að við gætum hallað okkur aftur og slakað á, heldur þyrftum við að gera enn betur. Ragna sagði að í þessu samhengi væri sjálfbærni algjört lykilatriði. Með því að horfa á efnahag, umhverfi og samfélag með heildstæðum hætti gætum við markað skynsamlega stefnu til langtíma. Viðfangsefni Landsvirkjunar væru fyrst og fremst af tvennum toga; annars vegar væri verkefnið að skila arði af auðlindinni til þjóðarinnar og hins vegar leggja lóð sitt á vogarskálarnar í baráttunni við hlýnun jarðar.

Fréttasafn Prenta