Frétt

Gullmerki jafnlaunaúttektar PwC í sjötta sinn

7. janúar 2021

Landsvirkjun hefur fengið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC fyrir árið 2020, en fyrirtækið hlaut það áður fyrir árin 2013, 2015, 2017, 2018 og 2019. Þetta er því sjötta skiptið í röð sem fyrirtækið nær þessum áfanga, en jafnlaunaúttekt var ekki gerð fyrir árin 2014 og 2016.

Úttektin, sem gerð var á grundvelli launa í október, leiddi í ljós að grunnlaun karla innan fyrirtækisins væru 2,1% hærri en grunnlaun kvenna. Heildarlaun karla voru 0,8% hærri en heildarlaun kvenna.

Sá munur sem er á grunn- og heildarlaunum er innan þeirra marka sem PwC hefur sett varðandi góðan árangur í jöfnum launum kynja.

Jafnlaunaúttekt PwC styður við úttekt á jafnlaunakerfi Landsvirkjunar, í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012. Landsvirkjun fékk vottun BSI á jafnlaunakerfi fyrirtækisins í desember 2018 og viðhaldsvottun var framkvæmd í desember 2020 sem sýndi að kerfið er virkt og hannað til þess að jafnréttis sé gætt við ákvörðun launa.

Hörður Arnarson, forstjóri:

Það er okkur hjá Landsvirkjun mikið kappsmál að jafnréttis sé gætt við ákvörðun launa. Jafnlaunaúttekt PwC er afar mikilvæg stoð fyrir okkur í þeim efnum og staðfestir að jafnlaunakerfi fyrirtækisins virkar eins og til er ætlast. Það er einkar ánægjulegt að fá gullmerkið í sjötta skiptið og það hvetur okkur til dáða í ár sem fyrri ár.

Fréttasafn Prenta