Frétt

„Hægt er að lágmarka sjónræn áhrif orkumannvirkja á landslag. ”

4. september 2015
Gavin Lister er einn fremsti landslagsarkitekt Nýja Sjálands og sérhæfir sig í heildrænni hönnun og framkvæmdum tengdum endurnýjanlegum orkugjöfum.
Gavin Lister talar fyrir fullum sal á Hilton Reykjavik Nordica.
Frá vinstri: Rut Kristinsdóttir, Steinþór Kári Kárason, Stefán Pálsson, Áslaug Traustadóttir, Gavin Lister, Hermann Georg Gunnlaugsson, Björk Guðmundsdóttir, Ólafur Páll Jónsson, Ragna Árnadóttir

Hægt er að lágmarka sjónræn áhrif orkumannvirkja á landslag með því að vinna með sérkennum náttúrunnar í hönnuninni, það endurspeglar virðingu við umhverfið,

segir Gavin Lister landslagsarkitekt og stofnandi Isthmus á málþingi Landsvirkjunar sem haldið var í dag á Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni „Hvernig mótar orkuvinnsla umhverfið?” Fundurinn var haldinn í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta og er liður í fundaröð í tilefni af 50 ára afmæli Landsvirkjunar. Um 180 manns sóttu fundinn og var honum jafnframt streymt beint á vefsíðu Landsvirkjunar.

Í erindi sínu sagði Gavin Lister að það væri mikilvægt að hanna orkumannvirki á svipaðan hátt og borgir eru skipulagðar, heildarmyndin skiptir öllu máli. Mikilvægt væri að vanda til verka við hönnun og framkvæmda slíkra mannvirkja þar sem þau koma til með að móta umhverfið til framtíðar.

Aðrir framsögumenn voru Stefán Pálsson sagnfræðingur, Rut Kristinsdóttir, sviðsstjóri umhverfismats Skipulagsstofnunar, Helena Guttormsdóttir, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Ólafur Páll Jónsson heimspekingur og Áslaug Traustadóttir, landslagsarkitekt hjá Landmótun. Fundarstjóri var Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar. 

Félagslegt samhengi orkumannvirkja

Stefán Pálsson sagnfræðingur sagði í framsögu sinni að áhrif orkumannvirkja á landslag hafi verið ærin í gegnum tíðina en umræðan um þau hafi þó tekið miklum breytingum í áranna rás.

Steinþór Kári Kárason, arkitekt og prófessor við Listaháskóla Íslands, greindi frá þróun bygginga orkumannvirkja Landsvirkjunar í sögulegu og samfélagslegu samhengi. „Það er hlutverk arkitektsins að hlutgera og myndgera arkitektúrinn í samhengi við tíðaranda samtímans“, sagði Steinþór.

Rut Kristinsdóttir, sviðsstjóri umhverfismats Skipulagsstofnunar, velti upp þeirri spurningu hversu raunhæft það væri að ætla að virkjanamannvirki séu afturkræf: „Það skiptir miklu máli að haga framkvæmdum og hönnun mannvirkja með þeim hætti að þau falli sem best að umhverfinu og öllum tiltækum ráðum sé beitt til að takmarka rask og varanleg áhrif,“ sagði Rut í erindi sínu.

Í erindi sínu fjallaði Ólafur Páll Jónsson heimspekingur og prófessor við Háskóla Íslands, um hvort virkjanamannvirki væru afturkræf. Hann benti á að það sé nauðsynlegt að hugsa einnig um félagslega samhengið: „Það verður að hugsa um hlutverk virkjunarinnar, mikilvægi hennar fyrir þau heimili og þann iðnað sem reiða sig á orkuna frá henni. Spurningin er því ekki bara hvort hægt sé að fjarlægja tiltekin mannvirki, heldur líka hvort kostur sé á öðrum orkulindum, sem komið gætu í staðinn, eða hvort við getum verið án þeirrar orku sem virkjunin framleiðir,“ sagði Ólafur Páll.

Helena Guttormsdóttir, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, sagði að það væri afar mikilvægt  að skilja sjónræna samsetningu landslagsins og nota hana sem grunn til hönnunar eða mótunar í og á landi. Taka þyrfti mið af og vinna með áberandi landslagssérkenni og gæði sem felast í landslagi á hverjum stað. Jafnframt væri mikilvægt að varðveita og ýta undir menningarlegt gildi svæða.

Áslaug Traustadóttir, landslagsarkitekt hjá Landmótun, útlistaði hvernig landslagsarkitektar vinna út frá sjónrænum heildaráhrifum mannvirkjagerða. Hún sagði að það væri mikilvægt að horfa á heildina í ljósi breyttar landnotkunar og ásýndar. Enn fremur þyrfti að huga vel að lokafrágangi í upphafi framkvæmda, t.a.m. endurnýtingu á efni og jarðveg, takmörkunum á  flutningsleiðum til að vernda einstök svæði fyrir ágangi.

Björk Guðmundsdóttir, landslagsarkitekt FÍLA, Landsvirkjun,
og Hermann Georg Gunnlaugsson, formaður Félags íslenskra landslagsarkitekta, drógu saman helstu niðurstöður fundarins í kjölfar pallborðsumræðna.

 Um Gavin Lister

Gavin Lister er einn fremsti landslagsarkitekt Nýja Sjálands og stofnandi landslagsarkitektastofunnar Isthmus. Hann sérhæfir sig í heildrænni hönnun og framkvæmdum tengdum endurnýjanlegum orkugjöfum. Hann situr í Umhverfisskipulagsráði Aukland og hefur komið að ráðgjöf, þróun og hönnun á almenningssvæðum, innviðum og skipulagi borga.

Fundaröð í tilefni af 50 ára afmæli Landsvirkjunar

Í tilefni af 50 ára afmæli Landsvirkjunar hefur félagið staðið að opnum fundum og viðburðum á árinu. Viðfangsefnin hafa verið fjölbreytt og kallað á opin samskipti við hagsmunaaðila um allt land með gagnsærri og faglegri umræðu um málefni sem tengjast starfsemi fyrirtækisins. Hjá Landsvirkjun starfar stór hópur sérfræðinga með það að markmiði að stuðla að því að fyrirtækið verði í fremstu röð á sviði nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa.

Upptaka af fundinum

Fréttasafn Prenta