Frétt

Hækkar hratt í Hálslóni

4. júní 2013

Vorflóð eru hafin á vatnasviði Fljótsdalsstöðvar og hækkar nú hratt í Hálslóni. Þann 30. maí fór að hækka í lóninu eftir samfellda lækkun frá því í september í fyrra. Lægst fór lónið í um 570 metra yfir sjávarmáli þann 28. maí síðastliðinn. Innrennslið hefur aukist dag frá degi og hækkar nú um hálfan meter á dag í Hálslóni. Mikill snjór er á vatnasviðinu þannig að búist er við því að hratt hækki í lóninu á næstu vikum ef hlýindi haldast.

Eins og kom fram í frétt Landsvirkjunar 9. maí leiddi óvenjulegt veðurfar í vetur til þess að staða í miðlunarlónum Landsvirkjunar á norður og austurlandi var verri en spár gerðu ráð fyrir í upphafi vetrar. Af þessum sökum dró Landsvirkjun úr raforkuvinnslu í Blöndustöð og Fljótsdalsstöð eins og kostur er og jók þess í stað vinnslu í aflstöðvum á vatnasviði Tungnaár og Þjórsár. Flutningskerfi Landsnets takmarkar hinsvegar verulega svigrúm til orkuflutnings milli landshluta.

Landsvirkjun óskaði eftir því við Alcoa Fjarðaál að draga tímabundið úr orkunotkun og tilkynnti um mögulega orkuskerðingu eins og gert er ráð fyrir í samningum milli fyrirtækjanna. Í ljósi batnandi stöðu í Hálslóni nú mun ekki þurfa að grípa til boðaðra skerðinga.

Fréttasafn Prenta