Frétt

Hálslón komið á yfirfall

9. október 2015

Yfirborð Hálslóns er nú í 625 metra hæð yfir sjávarmáli og er komið á yfirfall. Fylling lónsins fór hægt af stað og voru horfur á fyllingu miðlunarlóna síðsumars slæmar. Óvenju hlýtt veðurfar í septembermánuði orsakaði hinsvegar aukna jökulbráðnun og þar með aukið innrennsli í miðlanir Landsvirkjunar.

Þegar vatn rennur á yfirfalli myndast fossinn Hverfandi við vestari enda Kárahnjúkastíflu niður að gljúfurbarminum og þaðan steypist vatnið 90-100 metra niður í Hafrahvammagljúfur. Fossinn er aflmikill og getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss.

Staða annarra miðlunarlóna Landsvirkjunar

Staða Þórisvatns hefur einnig batnað verulega síðustu daga og nú vantar um 65 cm að það fyllist en yfirfallshæð þar er 579 metrar yfir sjávarmáli. Í Blöndulón vantar enn um 1,5 metra á fyllingu þess.

Hálslón á yfirfalli 2008-2015

2015 9. október
2014 1. september
2013 31. ágúst
2012 7. ágúst
2011 13. september
2010 28. júlí
2009 9. september
2008 16. ágúst

Nánari upplýsingar

Upplýsingar um vatnsstöðu lóna: Vöktun á vatnsstöðu í lónum og öðrum umhverfisþáttum á rauntíma

Frétt: Landsvirkjun dregur til baka boðaðar takmarkanir á orkuafhendingu. 

Fréttasafn Prenta