Frétt

Hálslón við það fyllast

9. september 2013
Mynd tekin af Hálslóni 30. ágúst en lónið er við það að fara á yfirfall

Yfirborð Hálslóns er nú komið í tæpa 625 metra yfir sjávarmáli. Á síðustu 7 dögum hefur lónið hækkað yfir 2 metra þannig að búast má við að það fari á yfirfall um helgina. Það er rúmum þrem vikum síðar en síðasta sumar.

Þegar vatn rennur á yfirfalli myndast fossinn Hverfandi við vestari enda Kárahnjúkastíflu niður að gljúfurbarminum og þaðan steypist vatnið 90-100 metra niður í Hafrahvammagljúfur. Fossinn er aflmikill og getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss.

Staða annarra miðlunarlóna Landsvirkjunar

Kalt vor, sérstaklega á Norður og Austurlandi, orsakaði að vorflóð hófust seint þetta árið. Rennsli á Suðurlandi hefur einnig verið undir meðallagi í sumar og vantar tæpa 5 metra á að Þórisvatn fyllist og um 2,5 metra að Blöndulón fyllist. Landsvirkjun gerir ekki ráð fyrir að þessi lón fyllist í haust. Þessi staða ætti ekki að hafa áhrif á orkuafhendingu Landsvirkjunar á komandi vetri en það verður metið þegar niðurdráttur lóna hefst í haust.

Rennsli að miðlunarlónum Landsvirkjunar er háð breytilegu veðurfari, þannig eðlilegt er að búast við árum þar sem lónin fyllast ekki.

 

Hálslón á yfirfalli 2007-2012 

Ár         Dagsetning

2012      7. ágúst

2011      13. september

2010      28. júlí

2009      9. september

2008      16. ágúst

2007      18. október

Fréttasafn Prenta