Frétt

Haraldur Hallgrímsson ráðinn forstöðumaður viðskiptaþróunar og sölu

8. ágúst 2017

Haraldur Hallgrímsson hefur verið ráðinn forstöðumaður viðskiptaþróunar og sölu á markaðs- og viðskiptaþróunarsviði Landsvirkjunar.

Viðskiptaþróun og sala hefur það hlutverk að afla nýrra viðskiptatækifæra fyrir Landsvirkjun jafnt innanlands sem utan. Áhersla deildarinnar er á tækifæri tengd beinum viðskiptum með rafmagn, auk skyldra verkefna. Aukin áhersla er á nýjar atvinnugreinar með áherslu á fullnýtingu orkuauðlinda og sjálfbærni.

Deildin þróar orkuvörur og þjónustu og markaðssetur gagnvart mögulegum viðskiptavinum. Viðskiptaþróun og sala ber ábyrgð á samningaviðræðum við nýja viðskiptavini. Forstöðumaður heyrir undir framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs.

Haraldur hefur verið sölustjóri á markaðs- og viðskiptaþróunarsviðinu frá árinu 2013. Áður starfaði hann hjá Matís, fyrst sem fagstjóri á viðskiptaþróunarsviði og síðar sem sviðsstjóri nýsköpunar og neytenda. Hann starfaði í átta ár hjá Íslenskri erfðagreiningu sem sérfræðingur og hópstjóri.

Haraldur er með MBA frá Oxford háskóla, Säid Business School og BBA í viðskiptafræði og tölvunarfræði frá University of Iowa í Bandaríkjunum.

Haraldur er kvæntur Önnu Ben Blöndal og eiga þau 5 börn.

Fréttasafn Prenta