Landsvirkjun

Heildsöluverð birt fyrir árið 2020

19. ágúst 2019

Landsvirkjun hefur gefið út heildsöluverð fyrir árið 2020 og mun á næsta ári bjóða viðskiptavinum í heildsölu sama vöruframboð og síðustu ár. Raforkuverð mun taka mið af verðlagsbreytingum og verða óbreytt að raunvirði miðað við árið 2019. Fyrirkomulagi heildsölusamninga var breytt í byrjun árs 2017 með það að augnamiði að nýta þær náttúruauðlindir sem fyrirtækinu er treyst fyrir á sem ábyrgastan hátt. Þá hefur verðlagning einnig tekið breytingum til þess að endurspegla betur kostnað fyrirtækisins við raforkuvinnslu, t.d. hvað aflkostnað varðar.

Vöruframboð í heildsölu býður uppá sveigjanleika fyrir viðskiptavini sem geta gert samninga til 12 mánaða fyrir grunnorku, mánaðarblokkir og breytilega orku. Í grunnorkusamningum er um sama magn orku allar klukkustundir sólarhringsins yfir samningstímann að ræða. Í mánaðarblokkum er um sama magn orku allar klukkustundir sólarhringsins innan hvers mánaðar að ræða. Í samningum um breytilega orku er magn raforku breytilegt innan mánaðar en er þó háð umsömdum aflmörkum. Þá rekur Landsvirkjun einnig vef fyrir skammtímakaup þar sem er m.a. hægt að kaupa raforku með litlum fyrirvara. Endanlegt magn og verð sem boðið er í skammtímaviðskiptum tekur mið af verðmyndandi þáttum hverju sinni svo sem vatnsstöðu, aflstöðu, framboði og eftirspurn.

Landsvirkjun hefur lagt áherslu á hóflega verðlagningu í heildsölu og hefur meðalverð haldist stöðugt síðustu ár líkt og sjá má á myndinni „Þróun heildsöluverðs Landsvirkjunar“. Verð fyrir árið 2020 er það sama og fyrir árið 2019 að teknu tilliti til verðbólgu. Verðlagsleiðrétting miðast við hækkun vísitölu neysluverðs til verðtryggingar milli desember 2018 og desember 2019 og eru ný verð í heildsölu því uppfærð miðað við þá breytingu 1. janúar 2020. Gangi verðbólguspá Seðlabanka Íslands eftir má gera ráð fyrir um 3% nafnverðshækkun á milli ára.

Viðskiptavinir Landsvirkjunar á heildsölumarkaði eru nú átta talsins og eru sumir jafnframt með eigin raforkuvinnslu. Þarfir og innkaupamynstur viðskiptavina er innbyrðis ólíkt sem endurspeglar mismunandi innkaupaverð. Viðskiptavinir í heildsölu selja raforkuna áfram til heimila og almennra fyrirtækja.

Græn skírteini fyrir íslensk heimili og fyrirtæki

Í baráttunni við loftslagsbreytingar er einna brýnast að auka raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Sala á grænum skírteinum styður við þessa þróun þar sem auknu fjármagni er veitt í verkefni tengd uppbyggingu á grænni raforkuvinnslu. Ágóða Landsvirkjunar af sölu skírteinanna er þannig ráðstafað í að bregðast við aðsteðjandi loftslagsvanda. Græn skírteini fylgja með raforkusamningum Landsvirkjunar á heildsölumarkaði sem gerir heimilum og almennum fyrirtækjum kleift að fá vottun á endurnýjanlegum uppruna raforkunnar. Umhverfisvitund neytenda er sífellt að aukast og geta grænu skírteinin gefið íslenskum fyrirtækjum samkeppnisforskot í sölu og markaðssetningu á vörum sínum.

Verð frá Landsvirkjun fjórðungur af rafmagnsreikningi heimilanna

Á vefsíðu Samorku, www.samorka.is/raforka, er hægt að fræðast um rafmagnskostnað heimilanna og samsetningu hans, en orkuverð frá Landsvirkjun er að meðaltali um fjórðungur af endanlegum rafmagnsreikningi heimilanna í þeim tilvikum sem sölufyrirtæki kaupa raforku af Landsvirkjun. Við það bætist álagning sölufyrirtækja, flutningur, dreifing og virðisaukaskattur.

Hlutfall raforku af heildarrafmagnsreikningi heimilis hefur farið lækkandi undanfarin ár, en ein skýring þess er að heildsöluverð frá Landsvirkjun hefur hækkað minna en verðlag á tímabilinu. Heildsöluverð Landsvirkjunar sem hlutfall af rafmagnsreikningi heimilanna hefur lækkað úr tæpum þriðjungi í fjórðung á síðustu 10 árum, farið úr 30% árið 2008 í 26% árið 2018.

Nánar má lesa um þróun raforkuverðs í nýlegri skýrslu EFLU verkfræðistofu.

Fréttasafn Prenta