Frétt

Heildsöluverðlisti fyrir 2019 kominn út

3. september 2018

Landsvirkjun hefur gefið út heildsöluverðlista fyrir 2019, en fyrirtækið mun bjóða samskonar vöruframboð og undanfarin tvö ár. Viðskiptavinir í heildsölu selja raforkuna áfram til heimila og almennra fyrirtækja. Verðlagning Landsvirkjunar frá árinu 2008 hefur í stórum dráttum verið í samræmi við þróun verðlags, en hér má sjá þróun síðustu ára:

Í nýjum verðlista er verð á grunnorku, sem hægt verður að kaupa til allt að fimm ára, óbreytt á föstu verðlagi. Þá er vetrarverð mánaðarblokka og breytilegrar orku einnig óbreytt, en sumarverð hækkar í takt við þróun kostnaðar við raforkuvinnslu, sem er nú jafnari yfir árið en áður. Í mánaðarblokkum hækkar verð frá maí til október um 11% á milli ára en hækkunin er 6,3% í breytilegri orku fyrir sama tímabil. Aflgjald hækkar um 14% á milli ára til þess að endurspegla betur aflkostnað Landsvirkjunar. Verðbreytingarnar milli ára hafa mismikil áhrif á viðskiptavini og fer eftir innkaupamynstri þeirra, en búist er við að heildsöluverð muni hækka um 1,2% að meðaltali á verðlagi ársins 2018.

Bætt aflnýting og fjölgun viðskiptavina í kjölfar nýs fyrirkomulags

Núverandi fyrirkomulag heildsölusamninga var innleitt í byrjun árs 2017 með það að augnamiði að nýta sem best þær náttúruauðlindir sem fyrirtækinu er treyst fyrir. Þá hefur verið lögð áhersla á að verð endurspegli betur kostnað við framleiðslu á mismunandi vöruflokkum til hagkvæmni fyrir viðskiptavini og raforkukerfið í heild sinni. Í kjölfarið hefur aflskuldbinding Landsvirkjunar minnkað umtalsvert og skammtímakaup á rafmagni aukist. Bætt nýting raforkukerfisins með þessum hætti hefur í för með sér betri nýtingu á auðlindum.

Eftirspurn eftir heildsölurafmagni frá Landsvirkjun hefur farið mjög vaxandi undanfarin ár. Með styttri og sveigjanlegri samningum hefur innkoma nýrra aðila á markaðinn verið auðvelduð. Tvö ný fyrirtæki á heildsölumarkaði hafa tekið til starfa á síðustu misserum, Íslensk orkumiðlun og Orka heimilanna, og bættust þar með í hóp viðskiptavina Landsvirkjunar. Sölufyrirtækin eru því átta talsins, en hin fyrirtækin eru Orkusalan, Orka náttúrunnar, HS Orka, Fallorka, Orkubú Vestfjarða og Rafveita Reyðarfjarðar. Sum þessara fyrirtækja vinna einnig raforku í eigin virkjunum.

Verð frá Landsvirkjun fjórðungur af rafmagnsreikningi heimilanna

Á vefsíðu Samorku, www.samorka.is/raforka, er hægt að fræðast um rafmagnskostnað heimilanna og samsetningu hans, en orkuverð frá Landsvirkjun er að meðaltali um fjórðungur af endanlegum rafmagnsreikningi heimilanna í þeim tilvikum sem sölufyrirtæki kaupa raforku af Landsvirkjun. Við það bætist álagning sölufyrirtækja, flutningur, dreifing og virðisaukaskattur.

Neytendur geta valið frá hvaða sölufyrirtæki þeir kaupa rafmagn fyrir heimilið óháð staðsetningu. Á síðu Aurbjargar er hægt að bera saman rafmagnsverð í smásölu, www.aurbjorg.is/#/rafmagn.

Fréttasafn Prenta