Frétt

Hornsteinn lagður að Búrfellsstöð II og stöðin gangsett

28. júní 2018
Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, lagði hornstein að Búrfellsstöð II og fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, gangsetti stöðina. Á myndinni eru, frá vinstri: Hörður Arnarson forstjóri, Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri, Guðni, Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður, Ásbjörg Kristinsdóttir yfirverkefnisstjóri framkvæmdarinnar, Bjarni og Gunnar Guðni Tómasson, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs.

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, lagði hornstein að Búrfellsstöð II, og fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, gangsetti hana við hátíðlega athöfn í dag, 28. júní 2018.

Búrfellsstöð II er átjánda aflstöð Landsvirkjunar. Hún er í Sámsstaðaklifi, á milli Búrfells og Sámsstaðamúla, og við hönnun hennar var leitast við að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdanna. Stöðvarhúsið er neðanjarðar og nýtir stöðin inntakslón og önnur veitumannvirki Búrfellsstöðvar.

Auk forseta og fjármála- og efnahagsráðherra héldu ávörp á athöfninni Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður, Hörður Arnarson forstjóri, Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri, Gunnar Guðni Tómasson framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs og Ásbjörg Kristinsdóttir yfirverkefnisstjóri framkvæmdarinnar.

Bætt nýting auðlindar

Með stöðinni, sem er 100 MW, eykst orkugeta raforkukerfisins um allt að 300 GWst á ári. Kemur það til bæði vegna þess að rennslið er nýtt betur, auk þess sem falltap verður minna þegar álag er fært af Búrfellsstöð yfir á Búrfellsstöð II. Uppsett afl nýrrar stöðvar er 100 MW með einni vél en gert er ráð fyrir að síðar verði hægt að stækka stöðina um allt að 40 MW.

Framkvæmdir 2016-18

Verkís sá um hönnun virkjunarinnar og voru byggingaframkvæmdir í höndum samsteypufyrirtækis (joint venture) Íslenskra Aðalverktaka, Marti Contractors og Marti Tunnelbau. Verkeftirlit á staðnum var í höndum Landsvirkjunar en Mannvit kom að eftirliti með byggingarframkvæmdum. Andritz Hydro framleiddi vél- og rafbúnað og DSD-NOELL lokur og þrýstivatnspípu.

Framkvæmdir við verkefnið hófust í apríl 2016. Stöðin er staðsett neðanjarðar í Sámsstaðaklifi, en vatn er tekið úr inntakslóni Búrfellsstöðvar (Bjarnalóni). Lónið og veitumannvirki voru þegar til staðar. Úr inntakslóni er 370 metra langur aðrennslisskurður sem liggur fram undir brún Sámsstaðaklifs að inntaki stöðvar. Þaðan fellur vatnið niður um 110 metra löng fallgöng að stöðvarhúsi og þaðan er vatninu síðan veitt út í frárennslisskurð sem leiðir það út í Fossá.

Fjölmargir starfsmenn af ýmsum þjóðernum

Fjölmargir starfsmenn komu að framkvæmdum við Búrfellsstöð II á árunum 2016-2018. Þegar mest var voru yfir 240 starfsmenn á verkstað af um 20 þjóðernum. Þar af voru Íslendingar um og yfir 40% allan framkvæmdatímann. Af öðrum þjóðernum má nefna Litháa, Portúgali, Pólverja, Slóvaka, Austurríkismenn og Þjóðverja. Fjölmennasti hópur starfsmanna á verkstað var á vegum byggingarverktaka ÍAV Marti. Einnig voru þar hópar erlendra starfsmanna á vegum vél- og rafbúnaðarframleiðandans Andritz Hydro, stálframleiðandans DSD Noell, spennaframleiðandans Efacec og strengjaframleiðandans LS Cable.

Öryggis- og umhverfismál í fyrirrúmi

Við framkvæmdina hefur rík áhersla verið lögð á öryggismál og slysalaus starfsemi höfð í fyrirrúmi. Skilyrði var að starfsmenn hefðu setið námskeið í öryggis- og umhverfismálum sem öryggis-, heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa Landsvirkjunar hélt á staðnum.

Þann 4. desember 2016 hélt ÍAV Marti upp á hátíð heilagrar Barböru, en hún er verndari þeirra sem vinna við jarðvinnu ýmiss konar, svo sem jarðgangagerð og námuvinnu. Haldin var hátíðleg athöfn í aðkomugöngum þar sem lofgjörð var flutt og líkneski heilagrar Barböru komið þar fyrir til verndar starfsmönnum við framkvæmd. Athöfnin var einstaklega falleg og til áminningar um mikilvægi öryggis starfsmanna, sem Landsvirkjun leggur mikla áherslu á í sínum verkefnum.

Umhverfisstefnumið verkefnisins eru að lágmarka röskun á umhverfi og umhverfisspor framkvæmdasvæðis. Svæðinu hafði að mestu verið raskað við upphaf framkvæmda. Annars vegar var um að ræða svæði sem raskað var vegna byggingar Búrfellsvirkjunar á sínum tíma og hins vegar vegna þeirra framkvæmda sem farið var í vegna fyrri áforma um stækkun virkjunarinnar.

Öll veitumannvirki, ásamt inntakslóni, eru hluti af Búrfellsstöð I, auk vegagerðar að framkvæmdasvæðinu. Þá er allt athafnasvæði, vegna vinnubúða, steypustöðvar og verkstæða, það sama og notað var vegna byggingar stöðvarinnar í upphafi. Frárennslisskurður hafði þegar verið grafin að stórum hluta og var uppgreftri að hluta komið fyrir á svæðinu meðfram skurðinum. Verðmæt jarðefni, s.s mold og svarðlag, voru endurnýtt og gerð var krafa um flokkun sorps í mötuneytum, vinnubúðum og skrifstofum. Tryggt hefur verið að engin röskun verði á náttúrulegum birkiskógi/landnámsskógi og menningarminjum á svæðinu með afmörkun, samráði og upplýsingagjöf.

Saga virkjunaráforma við Búrfell

Árið 1914 stofnaði Einar Benediktsson Fossafélagið Títan ásamt fleirum til að virkja Þjórsá og fleiri íslensk fallvötn. Næstu fjögur árin keyptu fulltrúar félagsins næstum öll land- og vatnsréttindi í Þjórsá og Tungnaá frá Urriðafossi og inn á hálendið að Hrauneyjafossi. Þá var norskur vélfræðingur að nafni Gotfred Sætermoen fenginn til þess að rannsaka Þjórsársvæðið fyrir hönd félagsins. Hugmyndin var að stífla Þjórsá við Klofaey og veita vatninu um opna skurði í Bjarnalón við inntaksstíflu í Sámsstaðaklifi.

Hönnun félagsins gerði ráð fyrir stöðvarhúsi með 20 vélum við Sámsstaðaklif, milli Búrfells og Sámsstaðamúla. Þrátt fyrir að markvissar rannsóknir félagsins á vatnafari og virkjunarmöguleikum hér á landi varð ekkert úr áformum þess. Fossafélagið Títan var leyst upp árið 1951 þegar íslenska ríkið keypti virkjunarréttindi þess.

Landsvirkjun var stofnuð 1. júlí árið 1965, í tengslum við samninga um raforkusölu til álvers í Straumsvík, en Búrfellsstöð var reist til að efna þá samninga. Framkvæmdir hófust í júní 1966 og byrjaði stöðin að vinna rafmagn árið 1969, með þremur 35 MW vélum.

Árið 1972 voru þrjár vélar í viðbót teknar í notkun og jókst þá uppsett afl í 210 MW, en með tilkomu miðlana ofar á vatnasviðinu skapaðist möguleiki á því að stækka virkjunina. Í því skyni þótti fýsilegt að byggja nýja aflstöð í Sámsstaðaklifi, á sama stað og Títan félagið hafði lagt til.

Árið 1981 hófust framkvæmdir við stækkun og á árunum 1981-1989 voru fjarlægðar um 1,4 milljónir rúmmetra af efni úr frárennslisskurði. Áformin voru lögð til hliðar árið 1994 og þess í stað ráðist í aðra virkjunarkosti sem þóttu hagkvæmari á þeim tíma. Árin 1997-1999 var svo afl Búrfellsstöðvar aukið upp í 270 MW, en þrátt fyrir þá stækkun var enn möguleiki á frekari nýtingu þess vatnsafls sem rann um svæðið í gegnum stöðina og var því ákveðið að ráðast í byggingu Búrfellsstöðvar II, með eina 100 MW vél sem nýtir framhjárennsli eldri stöðvarinnar.

Fréttasafn Prenta