Frétt

Hreyfiafl í hálfa öld

1. júlí 2015

Eftirfarandi grein eftir Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformann Landsvirkjunar, birtist í Morgunblaðinu í dag, á 50 ára afmælisdegi fyrirtækisins.

Saga Landsvirkjunar er nátengd atvinnu- og efnahagssögu þjóðarinnar. Stofnun fyrirtækisins árið 1965 og bygging Búrfellsvirkjunar - fyrstu virkjunarinnar sem fyrirtækið reisti - var metnaðarfullt verkefni fyrir litla eyþjóð í Norður-Atlantshafi og mikilvægur þáttur í að Íslendingar öðluðust efnahagslegt sjálfstæði.

Í upphafi 6. áratugar síðustu aldar var efnahagsleg staða Íslands þröng. Rekin hafði verið hafta- og einangrunarstefna í kjölfar heimskreppunnar. Að lokinni síðari heimsstyrjöldinni höfðu Íslendingar notið góðs af Marshall-aðstoðinni en henni var að ljúka. Í staðinn fengu  þeir bein fjárframlög til framkvæmda frá Bandaríkjastjórn en árið 1960 lýsti hún yfir að dregið yrði úr þeim. Var það í samræmi við vilja ríkisstjórnarinnar sem tók við völdum hér á landi árið áður en markmið hennar var að endurheimta lánstraust þjóðarbúsins í útlöndum. 

Gjaldeyris- og innflutningshöft skyldu afnumin og gengislækkun framkvæmd. Sköpuð skyldu skilyrði til erlendrar fjárfestingar á Íslandi sem byggt gæti upp nýjar atvinnugreinar og aukið fjölbreytni útflutningsframleiðslunnar. Nýir lifnaðarhættir og lífskjarabreyting höfðu tekið við af fábreyttara þjóðfélagi og þeir kölluðu, ásamt fólksfjöldaþróun og þéttbýlismyndun, á stöðugt meiri rafmagnsnotkun. Nauðsynlegt var talið að auka hagvöxt. Orkufrekur iðnaður var álitinn besta leiðin til að byggja upp nýja útflutningsatvinnugrein.

Um svipað leyti fóru af stað athuganir sem leiddu að lokum til samninga um álver í Straumsvík og raforkusölu Landsvirkjunar frá Búrfellsvirkjun. Samningaviðræður stóriðjunefndar og fyrirtækisins Alusuisse hófust formlega 1961 og tveimur árum síðar voru teknar upp viðræður við Alþjóðabankann í Washington. Árið 1964 gaf bankinn grænt ljós. Þótt bygging Búrfellsvirkjunar væri mikil fjárfesting fyrir lítið hagkerfi, taldi bankinn hana réttlætanlega með tilliti til væntanlegs efnahagslegs afraksturs.

Lög um Landsvirkjun voru samþykkt á Alþingi í maímánuði árið 1965 og Landsvirkjun síðan stofnuð 1. júlí sama ár.

Vatnsaflsvirkjunin við Búrfell var stærsta framkvæmd Íslandssögunnar á sínum tíma. Með byggingu hennar og stofnun Landsvirkjunar var lagður grunnur að nýjum iðnaði í landinu sem leiddi af sér aukna verkþekkingu og fjölbreyttara atvinnulíf á Íslandi.

Í dag starfrækir Landsvirkjun 14 vatnsaflsstöðvar og tvær jarðvarmastöðvar á fimm starfssvæðum. Í byggingu er auk þess jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum. Þá hafa tilraunir staðið yfir með tvær vindmyllur á Hafinu norðan við Búrfell frá því í árslok 2012.

Hreyfiafl verðmætasköpunar

Landsvirkjun hefur verið hreyfiafl framfara og verðmætasköpunar í landinu í hálfa öld. Fyrirtækið hefur náð verulegum árangri til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Um leið hafa starfseminni fylgt áskoranir sem hefur þurft að mæta á hverjum tíma með framsækni og sem mestri sátt og jafnvægi milli efnahags, samfélags og umhverfis að leiðarljósi.

Í upphafi var tekin ákvörðun um að styðja við stóriðju á Íslandi. Það var stórt framfaraspor fyrir atvinnulífið og íslenskt samfélag í heild. Fyrirtæki í orkumiklum iðnaði eru enn þann dag í dag burðarás í viðskiptavinahópi Landsvirkjunar. Lögð er áhersla á að hlúa að þessum þætti í starfseminni.

Markmið þeirra sem stýrt hafa Landsvirkjun hverju sinni hefur ávallt verið að ná sem bestum árangri í ljósi aðstæðna á hverjum tíma. Markmiðið er hið sama nú. Verðmæti orkulindanna eru mikil og fara vaxandi. Möguleikar til að ná auknum árangri fyrir íslenskt samfélag eru verulegir en þeim fylgja áfram áskoranir.

Landsvirkjun mun áfram kappkosta að vera í fararbroddi á sviði umhverfismála, leggja áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, styðja við rannsóknir á lífríki og lágmarka umhverfisáhrif í starfseminni.

Eftirspurn meiri en framboð

Eftirspurn eftir íslenskri raforku er orðin meiri en framboð og ólíkar iðngreinar sýna Íslandi áhuga. Ný viðskiptatækifæri gera Landsvirkjun kleift að breikka hóp viðskiptavina í þeim tilgangi að auka verðmætasköpun og arðsemi fyrir eigandann og draga úr rekstraráhættu. Á sama tíma eru vísbendingar um að raforkusala á erlenda markaði um sæstreng kunni að vera arðbær fyrir Ísland, auka orkuöryggi í landinu og bæta ábyrga nýtingu orkulindanna. Landsvirkjun mun áfram taka þátt í að skoða hvort þar séu fyrir hendi tækifæri sem vilji er til að nýta.

Landsvirkjun er stærsta orkufyrirtæki landsins og gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Hlutverkið er að hámarka afrakstur þeirra orkulinda sem fyrirtækinu er treyst fyrir, með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Framtíðarsýn Landsvirkjunar er að vera framsækið raforkufyrirtæki á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Fyrirtækið starfar í alþjóðlegu umhverfi og ber sig saman við þau bestu sem vinna og selja orku. Mikilvægt er fyrir þjóðarhag að Íslendingum lánist að nýta auðlindir landsins af skynsemi. Í þeim efnum er hyggilegt að byggja á sögunni. Frumkvöðlastarf og framkvæmdir fortíðar lögðu hornstein að þeim lífsgæðum sem við njótum. Á sama hátt munu ákvarðanir og athafnir okkar ráða miklu um lífsgæði komandi kynslóða.

Fréttasafn Prenta