Frétt

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra heimsækir Landsvirkjun og skoðar virkjunarkosti á Þjórsár-Tungnaársvæði

10. ágúst 2013
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, og forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, kynna sér stöðu mála á Búðarhálsi

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, heimsótti Landsvirkjun í gærdag, 7. ágúst. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar,  ásamt sérfræðingum, kynntu fyrir ráðherra virkjunarkosti og aflstöðvar á Þjórsár-Tungnaársvæðinu.

Virkjunarkostir í neðanverðri Þjórsá skoðaðir

Landsvirkjun hefur um árabil unnið að rannsóknum og undirbúningi þriggja virkjunarkosta í neðanverðri Þjórsá. Ráðherra skoðaði fyrirhuguð virkjunarsvæði ásamt því að virkjunartillögur og mögulegar mótvægisaðgerðir voru kynntar.

Landsvirkjun leggur áherslu á að um þrjá sjálfstæða kosti sé að ræða. Hvammsvirkjun er efsti virkjunarkosturinn, þar fyrir neðan Holtavirkjun og Urriðafoss er svo neðsti virkjunarkosturinn.  Mati á umhverfisáhrifum allra virkjunarkostanna er lokið og hafa þeir verið teknir inn á staðfest aðalskipulag viðkomandi sveitafélaga.

Aflaukning í Búrfellsstöð sökum aukins rennslis í Þjórsá

Ráðherra heimsótti næst Búrfellstöð og skoðaði virkjunarsvæði vegna fyrirhugaðrar stækkunar stöðvarinnar. Hlýnandi loftslag og aukin jökulbráðnun samfara því mun auka vatnsmagn jökuláa í  náinni framtíð en Landsvirkjun hefur kynnt opinberlega áætlanir um að bæta nýtingu á núverandi aflsvæðum, meðal annars í ársskýrslu fyrirtækisins 2011 og á haustfundi 2012.

Töluvert vatnsmagn rennur í dag ónýtt fram hjá Búrfellsstöð en í dag er nýting rennslisorku Búrfellsstöðvar 87% og renna því 350 GW stundir á ári að jafnaði framhjá virkjuninni. Orkuútreikningar sýna að með 70 MW stækkun virkjunarinnar megi auka orkugetu kerfisins um 210 GW stundir á ári.

Vindmyllur á Hafinu vinna 500 MWh meiri orku en meðal vindmylla í heiminum

Ráðherra kynnti sér næst rannsóknarvindmyllur Landsvirkjunar á Hafinu og voru þær skoðaðar undir leiðsögn stöðvarstjóra, Ingvars Hafsteinssonar. Er um að ræða fyrstu vindmyllur fyrirtækisins en í ár var Ísland tilkynnt af alþjóðlegu vindorkusamtökunum sem 100 landið til að nýta vindorku.

Lokið var við uppsetningu vindmyllanna í desember 2012 og síðan þá hafa safnast upplýsingar um það hvort mögulegt sé að breyta íslenska rokinu í verðmæta auðlind. Rannsóknirnar snúast ekki síst um rekstur vindmylla við séríslenskar aðstæður, ísingu, skafrenning, ösku- og sandfok.

Fyrstu mælingar sýna að vindmyllurnar á Hafinu hafa það sem af er ári unnið 2.660 MWhsem er 500 MWh meiri orka en meðal vindmylla í heiminum hefði náð að vinna. Munurinn svarar til allrar raforkunotkunar 111 heimila.

Norðlingaölduveita skoðuð ásamt mögulegri nýtingu jarðvarma í Hágöngum og vatnsaflsvirkjun í Skrokköldu

Næst var ekið á svæði Norðlingaölduveitu og nýjustu tillögur Landsvirkjunar um veituna kynntar fyrir ráðherra.  Veitutilhögun frá Þjórsárfarvegi um Kjalöldu hefur verið lengi í skoðun, enda einn hagkvæmasti kostur til orkuöflunar í dag, en fyrirtækið hefur áhuga á að skoða umhverfisvænni útfærslur  sem hefði þá ekki áhrif á þá þætti sem ástæða þykir til að vernda á aðliggjandi svæðum  

Var í kjölfarið keyrt að Kvíslarveitum og horft til Skrokkölduvirkjunar og Hágöngusvæðisins og voru virkjunarkostirnir tveir kynntir fyrir ráðherra.

Skrokkölduvirkjun er vatnsaflskostur sem fæli í sér virkjun 196-211 metra falls úr Hágöngulóni í Kvíslarvatn um 11-13 kílómetra leið. Nýttist þá sú miðlun sem til staðar er í Hágöngulóni.

Hágönguvirkjun fæli hinsvegar í sér nýtingu jarðhitasvæðis í og við núverandi Hágöngulón, en mögulegt afl frá svæðinu er 45-135 MW.

Bygging Búðarhálsvirkjunar á áætlun

Að lokum var keyrt á framkvæmdasvæði Búðarhálsvirkjunar og framkvæmdir skoðaðar undirleiðsögn staðarverkfræðings. Verkið hefur gegnið vel og er á áætlun.

Gert er ráð fyrir afhendingu orku úr Búðarhálsvirkjun fyrir árslok 2013 en áætlað afl virkjunarinnar verður um 95 MW og orkugeta allt að 585 GWst á ári. Búðarhálsvirkjun verður rekin samhliða öðrum virkjunum Landsvirkjunar á Þjórsár- Tungnaársvæðinu.

 

Nánar má kynna sér virkjunarkosti Landsvirkjunar á http://www.landsvirkjun.is/Rannsoknirogthroun/Virkjunarkostir/

Nánar má kynna sér vindmyllur Landsvirkjunar og rauntímaupplýsingar um rafmagnsframleiðslu þeirra á http://www.landsvirkjun.is/Rannsoknirogthroun/Throunarverkefni/Vindmyllur/

Fréttasafn Prenta