Frétt

Ísland getur valið úr fjárfestingaverkefnum

17. nóvember 2016
Björgvin Skúli Sigurðsson tók þátt í pallborðsumræðum ásamt Paul Nillesson, Helgu Valfells og Gylfa Magnússyni. Fundarstjóri var Kristín Hrönn Guðmundsdóttir.

Ísland er í þeirri stöðu núna að geta valið vel þau fjárfestingaverkefni sem eru í boði, að mati Björgvins Skúla Sigurðssonar, framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun. Hann tók þátt í pallborðsumræðum á fundi um ívilnanir til nýfjárfestinga sem haldinn var í Háskóla Íslands á dögunum. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, PriceWaterhouse Coopers, Landsvirkjun og Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands stóðu að fundinum, sem bar yfirskriftina „Er eftirsóknarvert að fjárfesta á Íslandi?“.

Í pallborðsumræðunum sagði Björgvin sem fyrr segir að Ísland væri í þeirri stöðu núna að geta valið vel þau fjárfestingaverkefni sem eru í boði. Hann sagði að ívilnanir væru góðar í þeim tilgangi að byggja upp vissa geira til að auka þekkingu og ná vissum markmiðum. Björgvin sagði að nauðsynlegt væri að samræma stjórnsýslu þannig að hún hefði ekki neikvæð áhrif á fjárfesta.

Framsögumenn á fundinum voru Paul Nillesson, hagfræðingur og einn eigandi PriceWaterhouse Coopers í Hollandi, Ragnheiður Elín Árnadóttir, viðskipta- og iðnaðarráðherra, og Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla íslands. Kristín Hrönn Guðmundsdóttir, forstöðumaður á fyrirtækjasviði Íslandsbanka stýrði fundi og pallborðsumræðum. Auk Björgvins og framsögumanna tók Helga Valfells, forstjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, þátt í pallborðsumræðunum.

Hér má nálgast skýrslu PriceWaterhouse Coopers um ívilnanir til nýfjárfestinga.

Fréttasafn Prenta