Frétt

Ísland í öfundsverðri stöðu

21. nóvember 2012

Húsfyllir var á haustfundi Landsvirkjunar í dag en yfir 400 gestir mættu á fundinn sem haldinn var á hótel Hilton Reykjavik Nordica.

Í erindi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, kom meðal annars fram að þrátt fyrir alþjóðlega efnahagskreppu er Ísland í öfundsverðri stöðu. Fjölmörg iðnfyrirtæki eru áhugasöm um Ísland og undirbúa að hefja framkvæmdir þegar kreppunni lýkur. Landsvirkjun hefur gert samkomulag við fjögur fyrirtæki um ramma raforkusamnings og viðræður eru langt komnar við aðra aðila. Núverandi viðskiptavinir hafa einnig lýst yfir vilja til að vaxa þegar efnahagsástand batnar.   Það er því ljóst að full innistæða er fyrir verðstefnu Landsvirkjunar.

Hörður sagði stefnu Landsvirkjunar hvíla á traustum grunni sem lagður var í fortíð. Fyrirtækið vinnur nú að fjölbreyttum verkefnum sem styrkja fyrirtækið enn frekar svo sem að nýta betur auðlindir og lækka kostnað ásamt því að kanna möguleika á lagningu sæstrengs til Bretlands sem styður við allar meginstoðir stefnu Landsvirkjunar og myndi draga verulega úr áhættu í íslenskri orkuvinnslu.

„Tímabundin alþjóðleg kreppa hreyfir ekki við langtímasýn Landsvirkjunar en hefur áhrif á fyrirtækið til skemmri tíma. Landsvirkjun getur skapað mikil verðmæti fyrir íslenskt samfélag og haft jákvæð áhrif á lífskjör Íslendinga um ókomna tíð“ sagði Hörður. 

226.265.983.477 kWst frá upphafi reksturs
Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri orkusviðs, kynnti starfsemi aflstöðva Landsvirkjunar og þau sóknarfæri sem felast í orkuvinnslu. Hlýnun eykur rennsli í ám og orsakar umtalsverða aukningu á vinnslugetu en um 1.000 GWst eru nú þegar komnar fram án aukinna fjárfestinga og mögulegt er að vinna um 500 GWst til viðbótar með nýjum fjárfestingum.  Tækifæri eru til stækkana innan núverandi rekstrarsvæða, á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár við Búrfells-, Sultartanga-  og Sigöldustöð sem og á vatnasviði Blöndu.

Kallað eftir upplýstri og faglegri orðræðu
Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, ræddi um hvernig skapa megi aukið traust og breiða sátt um starfsemi Landsvirkjunar, sem er nauðsynleg undirstaða fyrirtækisins. Ragna benti á tvo mikilvæga þætti sem breið sátt þyrfti að ríkja um. Annars vegar jafnvægi milli nýtingar og verndar og hins vegar skipting verðmætanna sem skapast með orkuvinnslu. Nauðsynlegt er að um þessa þætti fari fram upplýst og fagleg umræða til að skapa megi aukna sátt. Í þessu samhengi kvað Ragna nauðsynlegt að hagsmuna­aðilar hlusti betur á sjónarmið hvers annars, vegi þau og meti. Landsvirkjun vill leggja sitt af mörkum og mun leggja sig fram um að auka upplýsingagjöf og upplýsa betur og fyrr um undirbúning virkjana, framkvæmdir þeirra og rekstur. 

Fréttasafn Prenta