Raforkuverð til álvera á Íslandi samkeppnishæft

15.01.2020Fjármál

Fróðlegur opinn fundur undir yfirskriftinni „Orkumarkaðir í mótun: Íslensk orka á alþjóðlegum mörkuðum“.

Martin Jackson, álsérfræðingur hjá greiningarfyrirtækinu CRU.
Martin Jackson, álsérfræðingur hjá greiningarfyrirtækinu CRU.

Álver á Íslandi standa vel að vígi þegar kemur að raforkukostnaði, en forskotið á álver annars staðar í heiminum minnkar þegar tekið er tillit til heildarkostnaðar. Þó er rekstur íslenskra álvera hagkvæmari en 2/3 álvera í heiminum. Þetta var á meðal þess sem kom fram í erindi Martins Jacksons, álsérfræðings hjá greiningarfyrirtækinu CRU, á opnum morgunfundi Landsvirkjunar um stöðuna á raforku- og álmörkuðum á Íslandi og erlendis.

Jackson fjallaði um stöðuna á álmörkuðum heimsins. Í máli hans kom fram að aukin samkeppni í framleiðslu á áli hefði þrýst heimsmarkaðsverðinu niður á við á síðustu árum. Framleiðsla Kínverja hefði frá aldamótum farið úr 10% af heildarframleiðslu í heiminum upp í 56% á nýliðnu ári. Kínverjar væru enn að knýja álvinnslu sína með kolaorkuverum, sem hefði valdið því að hlutur endurnýjanlegrar orku í álframleiðslu í heiminum hefði minnkað á sama tíma, þrátt fyrir aukningu annars staðar.

Sambærilegt grunnverð til allra kaupendahópa

Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptagreiningar hjá Landsvirkjun, fjallaði um samsetningu raforkureikningsins á Íslandi, en verð Landsvirkjunar fyrir jafna notkun, svokallaða grunnorku, er sambærilegt til allra kaupendahópa; heimila, fyrirtækja og stórnotenda. Fram kom hjá Val að heimili og fyrirtæki þyrftu hins vegar að borga u.þ.b. álag vegna sveigjanleika, sem kallaði á fjárfestingar í raforkukerfinu. Þá bættist einnig við álagning smásala, kostnaður við flutning og dreifingu og opinber gjöld. Stórnotendur þyrftu hins vegar einungis að greiða fyrir flutning, auk grunnorku. Þetta þýddi að raforkukostnaður fyrirtækja væri um tvisvar sinnum hærri en stórnotenda og heimila um þrisvar til fjórum sinnum hærri.

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs, rakti í máli sínu hvernig baráttan við loftslagsbreytingar hefði haft áhrif á raforkumarkaði. Þjóðir heims hefðu styrkt orkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum myndarlega, enda væri verkefnið að minnka raforkuvinnslu úr jarðefnaeldsneyti. Þessi stuðningur hefði bæði verið í gegnum beina styrki til verkefna um endurnýjanlega orku og í gegnum alþjóðleg kerfi um græn skírteini.

Hagnaði af sölu grænna skírteina varið í loftslagsverkefni

Stefanía sagði að framleiðendur endurnýjanlegrar orku gætu selt grænu skírteinin til að standa straum af kostnaði við nýja framleiðslu, eða viðhaldskostnaði vegna eldri virkjana. Með því að borga sérstaklega fyrir græna þátt vinnslunnar stuðluðu raforkunotendur að því að hlutfall endurnýjanlegrar orku ykist í orkuvinnslu heimsins. Markaðurinn með græn skírteini í Evrópu hefði leitt til þess að endurnýjanleg orka væri að koma hraðar inn á markaðinn og ýtti þar með út jarðefnaeldsneyti. Í máli hennar kom fram að Landsvirkjun hefði hagnast um 900 milljónir króna á árinu 2019 á sölu grænna skírteina og að allur sá hagnaður hefði farið í loftslagsverkefni fyrirtækisins, sem væru fjölmörg.

Sveinbjörn Finnsson, sérfræðingur í viðskiptagreiningu, fjallaði um aðstæður á norrænum raforkumörkuðum um þessar mundir. Í erindi hans kom fram að tímabundið offramboð væri á grænum langtímaraforkusamningum á Norðurlöndunum, m.a. vegna niðurgreiðslna til vindorku, en stefnt væri að því að raforkuvinnsla með kolum og gasi legðist af fyrir árið 2030. Þetta hefði leitt til þess að verð í grænum langtímasamningum væri um stundarsakir komið niður fyrir markaðsverð raforku á Norðurlöndunum. Aðstæður fyrir norska stórnotendur raforku væru hagstæðari en fyrir stórnotendur á Íslandi, að því leyti í fyrsta lagi að vindorkukostnaður væri þar niðurgreiddur, í öðru lagi að norska ríkið veitti stórnotendum ríkisstyrk til að koma til móts við kolefnisgjald Evrópusambandsins og í þriðja lagi að flutningskostnaður raforku væri hverfandi í Noregi.

Fundarstjóri var Tinna Traustadóttir, forstöðumaður viðskiptastýringar.

Hægt er að nálgast erindi og upptöku af fundinum hér