Frétt

Kaflaskiptu vatnsári lokið

3. október 2019
Þegar vatn rennur á yfirfalli myndast fossinn Hverfandi við vestari enda Kárahnjúkastíflu.

Nú í upphafi nýs vatnsárs eru öll miðlunarlón Landsvirkjunar full. Landsvirkjun er því í góðri stöðu til að tryggja orkuafhendingu til viðskiptavina sinna á komandi vatnsári, en ef innrennsli verður undir meðallagi í haust getur það haft áhrif á framboð orku frá fyrirtækinu.

Innrennsli á nýliðnu vatnsári  var kaflaskipt og í heild rétt í meðallagi. Haustið 2018 var kalt og niðurdráttur hófst óvenju snemma. Við tók síðan mildur vetur, með hlýindaköflum. Staða lóna fyrir vorflóð var því góð. Vorflóðin komu í apríl, fyrr en venja er. Fylling lóna í sumar gekk síðan ágætlega framan af og fylltust Þórisvatn og Hálslón í byrjun ágúst. Þá tók við kaldur ágústmánuður og innrennsli til miðlunarlóna dróst saman. Leit þá út fyrir að ekki næðist að fylla Blöndulón fyrir veturinn, en rigningar í september leiddu síðan til þess að Blöndulón fylltist 19. september.

Nýtt vatnsár hefst hjá Landsvirkjun 1. október ár hvert, en um það leyti eru miðlanir yfirleitt í hæstu stöðu eftir vorleysingar, jöklabráð sumarsins og upphaf haustrigninga. Þegar haustrigningum lýkur og vetur gengur í garð er byrjað að nýta miðlunarforðann. Vatn frá miðlunum stendur undir um helmingi af orkuvinnslu Landsvirkjunar yfir veturinn og fram á vor.

Hægt er að fylgjast með vatnshæð lóna daglega á vöktunarsíðu vefs Landsvirkjunar: www.landsvirkjun.is/rannsoknirogthroun/voktun

Fréttasafn Prenta