Frétt

Kolefnishlutlaus 2025

4. desember 2019
Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri opnaði fundinn og fjallaði um þá áskorun sem mannkynið stæði frammi fyrir, loftslagsvandann, sem væri raunverulegur og alvarlegur.

Húsfyllir var á opnum fundi okkar á Nauthóli, þar sem við kynntum aðgerðaáætlun okkar í loftslagsmálum og fjölluðum um loftslagsmál í víðara samhengi. Framsögur höfðu Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri, Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, Jóna Bjarnadóttir, forstöðumaður umhverfis og auðlinda hjá Landsvirkjun, Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, sérfræðingur í umhverfisstjórnun hjá Landsvirkjun, Ólafur Elínarson, sviðsstjóri markaðsrannsókna Gallups og Eggert Benedikt Guðmundsson, forstöðumaður Grænvangs. Fundarstjóri var Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkefnisstjóri samfélagsábyrgðar hjá Landsvirkjun.

Alþjóðlegt verkefni

Kristín Linda opnaði fundinn og fjallaði um þá áskorun sem mannkynið stæði frammi fyrir, loftslagsvandann, sem væri raunverulegur og alvarlegur. Um væri að ræða alþjóðlegt verkefni sem kræfist þess að þjóðir ynnu saman, en jafnframt væri þess krafist fyrirtæki legðu sitt af mörkum. Landsvirkjun hefði í gegnum tíðina verið afar virkur þátttakandi í baráttunni við loftslagsbreytingar, enda væri endurnýjanleg orka einn stærsti þáttur í lausninni á vandanum. Fyrirtækið hefði verið stofnaðili í Festu, tæki virkan þátt í Grænvangi, og skilaði m.a. verkefnum inn í „Global Climate Action“, verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Kristín Linda sagði að loftslagsmál væru orkumál, þar sem stór hluti af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum kæmi frá orkuvinnslu. Miklu máli skipti að breyta orkukerfum heimsins og gera þau loftslagsvænni. Ísland væri þekkt fyrir endurnýjanlega orkuvinnslu sína, sem hefði hverfandi losun kolefnis í för með sér samanborið við flest lönd, en Landsvirkjun hefði metnað til að ganga miklu lengra, eins og aðgerðaáætlunin um kolefnishlutleysi 2025 bæti vitni um.

Gripið inn í kolefnishringrás jarðarinnar 

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, var næstur í pontu. Hann byrjaði á því að fjalla um hugtakið kolefnishlutleysi. Halldór útskýrði að þá röskun á orkubúskap og veðrakerfum sem átt hefði sér stað mætti rekja til þess að mannkynið hefði gripið freklega inn í kolefnishringrás jarðarinnar og að eina leiðin til að fást við afleiðingar þess væri ná aftur jafnvægi milli losunar og bindingar. Markmið Parísarsamningsins væri að þetta jafnvægi næðist upp úr miðri öldinni, en helminga þyrfti nettó heimslosun fyrir árið 2030 og svo aftur hvern áratug eftir það. „Við höfum tíma, en við höfum ekki mikinn tíma,“ sagði Halldór.

Hann nefndi þær lausnir í loftslagsmálum sem væru þekktar og stæðu til boða; þar mætti fyrst nefna afkolun raforkuframleiðslu. „Við höfum nú þegar gert þetta hér á landi og verðið á tækninni hefur hrapað á undanförnum árum, fyrst og fremst vegna fjárfestinga. Þetta leiðir til þess að það er núna orðið hagkvæmara að byggja upp orkuframleiðslu með endurnýjanlegum orkugjöfum en kolum,“ sagði Halldór og nefndi auk þess að ör þróun hefði orðið í skipulagi boerga, samgöngum og heildarhugsun hringrásarhagkerfisins að undanförnu. Mesta áskorunin fælist í fæðukerfi framtíðar og uppbyggingu kolefnis í vistkerfum. Þá sagði hann að óumflýjanlegt væri að fara í umfangsmikla bindingu á næstu áratugum.

Þríþætt aðgerðaáætlun

Jóna Bjarnadóttir, forstöðumaður auðlinda og umhverfis, og Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, sérfræðingur í umhverfisstjórnun, kynntu aðgerðaáætlun Landsvirkjunar um kolefnishlutleysi árið 2025. Í máli þeirra kom fram að hin nýja aðgerðaáætlun gengi út á að fyrirbyggja losun, draga úr núverandi losun grípa til mótvægisaðgerða, í þeirri forgangsröð.

Landsvirkjun hefur um langt árabil lagt áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og unnið jafnframt að kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi. Í yfir 10 ár hefur fyrirtækið kortlagt og skrásett kolefnisspor fyrirtækisins og birt árlega losunartölur í umhverfisskýrslum, en góð þekking á kolefnisspori og ástæðum losunar er forsenda þess að fyrirtæki geti gripið til aðgerða. 

Jóna og Jóhanna byrjuðu á því að fjalla um þær aðgerðir sem gripið verður til í þeim tilgangi að fyrirbyggja losun. Í því augnamiði hefði Landsvirkjun m.a. sett verðmiða á losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri fyrirtækisins, þ.e. reiknað út svokallað innra kolefnisverð. Það hefði í för með sér upplýstari ákvarðanir um áhrif rekstrar á loftslagið, samhliða því að taka með í reikninginn í rekstri hvað það kostar fyrirtækið að verða kolefnishlutlaust.

Til að draga úr núverandi losun ætlar fyrirtækið að hreinsa útblástur frá Kröflustöð og spara þannig losun upp á 22.000 tonn CO2-ígilda á ári. Þá er ætlunin að skipta yfir í hreinorku fyrir bíla og vinnuvélar á vegum fyrirtækisins og stefnt að því að hætta að kaupa jarðefnaeldsneyti árið 2030. Einnig ætlar Landsvirkjun að minnka losun vegna flugferða um 30% fram til ársins 2030. 

Til að auka bindingu gróðurhúsalofttegunda í jarðvegi og gróðri ætlar fyrirtækið að auka uppgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Þannig mun binding fara úr rúmlega 30.000 tonnum CO2-ígilda 2018 í 45.000 tonn árið 2025 og 60.000 tonn 2030.

Jóna og Jóhanna sögðu að lokum að starfsfólk Landsvirkjunar hlakkaði til að halda starfinu áfram og eiga samstarf við fleiri fyrirtæki sem eru að vinna gott starf í þessum málum. 

Unga fólkið með meiri áhyggjur en það eldra

Ólafur Elínarson, sviðsstjóri markaðsrannsókna Gallups, sagði frá niðurstöðum kannana fyrirtækisins um viðhorf Íslendinga til loftslagsmála. Nefndi hann að mikill meirihluti aðspurðra, 85% Íslendinga, teldu að hækkun á hitastigi jarðar á síðustu öld væri meira vegna mengunar af mannanna völdum en náttúrulegra breytinga. Nærri helmingur aðspurðra hefði upplifað afleiðingar loftslagsbreytinga í eigin sveitarfélagi og rúmlega 60% hefðu áhyggjur af afleiðingum loftslagsbreytinga á sig og fjölskyldu sína.

Þá kom fram í máli hans að unga fólkið teldi frekar það eldra að hlýnun jarðar myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir sig eða sína lifnaðarhætti á ævi sinni. Ólafur kastaði fram þeirri kenningu að viðhorf einstaklinga í yngri hópunum myndi í þessu efni ekki breytast með hækkandi aldri, til samræmis við viðhorf eldri hópanna nú. Í niðurstöðum kannana Capacent kemur fram að 86% Íslendinga telja að það skipti miklu máli að fyrirtæki á Íslandi hrindi í framkvæmd aðgerðum sem hafi jákvæð áhrif á umhverfi og loftslagsbreytingar.  Þá hefur hlutfall þeirra sem telja orkugeirann ná árangri í því að draga úr losun farið hækkandi að undanförnu.

Allar gjafirnar á óskalistanum

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstöðumaður Grænvangs, samstarfsvettvangs atvinnulífs, stjórnvalda og fræðasamfélagsins þegar kemur að grænum lausnum, var síðastur á mælendaskrá. Hann sagði að aðgerðaáætlun Landsvirkjunar styddi við öll þrjú hlutverk Grænvangs: að vinna gegn loftslagsvá, kynna grænar lausnir frá Íslandi og styðja við orðspor Íslands sem leiðandi lands á sviði sjálfbærni. Hann sagði að aðgerðaáætlunin, með mælanlegum og tímasettum áfanga, styddi við markmiðið um kolefnishlutleysi 2040 og væri fyrirmynd að því hvernig við gætum náð þessu markmiði sem þjóð. Reynslan og þekkingin sem fælist í áætluninni ætti eftir að smita út frá sér, hér heima jafnt sem erlendis og styðja við orðspor Íslands á sviði sjálfbærni. „Það má segja að þessi þrjú hlutverk séu kannski okkar óskalisti til jólasveinsins fyrir næstu ár - þetta er það sem við vonumst til þess að gerist. Með þessu framtaki sem kynnt hefur verið í dag má segja að við höfum fengið allar gjafirnar á jólaóskalistanum og við hlökkum til að fylgjast með þessu á komandi árum,“ sagði Eggert Benedikt.

Upptöku af fundinum má nálgast hér.

Fréttasafn Prenta