Frétt

Kristján Kristinsson ráðinn öryggisstjóri

28. mars 2014

Kristján Kristinsson hefur verið ráðinn öryggisstjóri Landsvirkjunar. Öryggisstjóri ber ábyrgð á þróun, rekstri og viðhaldi öryggisstjórnkerfis Landsvirkjunar. Hann mun starfa þvert á fyrirtækið og áhættugreina með það að markmiði að uppfylla öryggisþarfir mismunandi sviða.  

Kristján hefur starfað hjá Landsvirkjun að öryggis- umhverfis- og gæðamálum frá árinu 2003, síðast sem öryggisstjóri nýframkvæmda. Kristján er efnaverkfræðingur, M.Sc., frá Tækniháskólanum í Lundi í Svíþjóð.

Landsvirkjun hefur ávallt lagt mikla áherslu á öryggismál í starfsemi sinni og er öryggisstjórnkerfi fyrirtækisins vottað samkvæmt OHSAS 18001 vinnuverndarstaðlinum. Slysalaus starfsemi er ein af megináherslum fyrirtækisins og vinnulag miðar að því að koma í veg fyrir slys. Þótt öryggismál hafi verið forgangsverkefni hjá fyrirtækinu þá má alltaf gera betur í þessum málaflokki og Landsvirkjun stefnir að því að verða fyrirmyndarfyrirtæki í öryggismálum. Hjá fyrirmyndarfyrirtæki eru öryggismál innbyggð í verkferla fyrirtækisins, mælanleg markmið sett í öryggismálum og öll atvik sem snerta öryggismál eru skráð og unnið úr þeim í forvarnarskyni. Sérstök áhersla verður lögð á að gera öryggismál sýnilegri í allri starfsemi fyrirtækisins og vægi málaflokksins aukið enn frekar. Gerð verður grein fyrir árangri í öryggismálum eftir hvert starfsár.

Mikil áhersla var lögð á öryggismál við byggingu Búðarhálsvirkjunar sem nú er nýlokið og náðist góður árangur.  Þar voru ýmis nýmæli tekin upp, til dæmis að gera öryggismál að sérstökum greiðslulið í samningum við verktaka. Með samstilltu átaki allra sem að verkinu komu urðu engin alvarleg slys á verktíma en alls voru unnar tæpar 2 milljónir vinnustunda, oft við mjög krefjandi aðstæður. Næstu verkefni Landsvirkjunar verða bygging jarðvarmavirkjana, þar koma til nýjar áskoranir í öryggismálum, þar sem við byggingu jarðvarmavirkjana eru ýmsar hættur sem ekki eru til staðar í vatnsaflsvirkjunum.

Fréttasafn Prenta