Frétt

Kynningarfundur um Bjarnarflagsvirkjun í Reykjahlíðarskóla

25. september 2013

Landsvirkjun bauð til opins kynningar- og samráðsfundar fyrir íbúa Skútustaðahrepps í Reykjahlíðarskóla þriðjudaginn 24. september og var fundurinn vel sóttur.

Á fundinum  greindi Ólafur Árnason, sviðsstjóri skipulagsmála hjá verkfræðistofunni Eflu, frá niðurstöðum úttektar mats á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar. Magnús Ólafsson, aðstoðardeildarstjóri jarðfræði- og umhverfismála hjá ÍSOR kynnti samantekt rannsókna um áhrif jarðhitanýtingar á volga grunnvatnsstrauminn til Mývatns.

Valur Knútsson, verkefnisstjóri um byggingu Bjarnarflagsvirkjunar, fór yfir næstu skref verkefnisins og Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar ræddi tilhögun samskipta við hagsmunaaðila.

Óskað eftir opnu samtali og frekara samráði við hagsmunaaðila

Kynnt var samráðsferli vegna Bjarnarflagsvirkjunar þar sem Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri, ræddi um mikilvægi þess að skapa stuðning og samstöðu með opnum samskiptum við hagsmunaaðila. Á fundinum var óskað eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila og áhuga þeirra á samráði.

Hagsmunaaðilar voru hvattir til að láta í ljós sjónarmið sín fyrir 5. nóvember næstkomandi. Að því loknu vinnur Landsvirkjun úr  ábendingum og metur svigrúm og leiðir til samskipta og samráðs. Stefnt er á að boða til samráðsfundar fyrir lok árs 2013.

Hægt er að senda inn athugasemdir eftir ýmsum leiðum en þær er hægt að kynna sér á heimasíðu verkefnisins: www.landsvirkjun.is/bjarnarflag

Niðurstöður rannsókna sýna að fyrirhuguð virkjun hefur lítil sem engin áhrif á volga  grunnvatnsstrauminn til Mývatns

Í erindi  Magnúsar Ólafssonar, aðstoðardeildarstjóra jarðfræði- og umhverfismála hjá ÍSOR, kom fram að volgi grunnvatnsstraumurinn til Mývatns, sem er undirstaða hins sérstæða lífríkis vatnsins, eigi uppruna sinn að stærri hluta frá Kröflusvæðinu en áður var talið.

Vinnslusaga úr Bjarnarflagi bendir til þess að áhrif af fyrirhugaðri vinnslu fyrir 45 MW raforkuver muni ekki hafa áhrif á volga grunnvatnið.

Flókið ferli á sér stað í samspili jarðhitavökvans frá jarðhitakerfunum í Kröflu og Námafjalli við einn af stærstu grunnvatnsstraumum landsins sem kemur af hálendinu í suðri. Rannsóknir sýna að náttúrulegur breytileiki, svo sem Kröflueldar, hefur hingað til haft veruleg áhrif á þetta samspil en engin merkjanleg áhrif hafa komið fram við Mývatn vegna jarðhitanýtingar.

Landsvirkjun styður endurskoðun mats á umhverfisáhrifum

Verkfræðistofan Efla hefur skilað úttekt sinni á núgildandi mati á umhverfisáhrifum fyrir Bjarnarflagsvirkjun. Lokaniðurstaða úttektar Eflu er að umfjöllun um jarðskjálfta sé ekki ítarleg í gildandi mati á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar og vanreifun á jarðskjálftavá gæti því kallað á endurmat umhverfisáhrifa þessa tiltekna þáttar.

Ekki eru teljandi breytingar á grunnástandi eða lagaramma sem valda því að endurtaka þurfi mat á umhverfisáhrifum fyrir Bjarnarflagsvirkjun í heild sinni.

Landsvirkjun styður endurskoðun á mati á umhverfisáhrifum en ákvörðun um það er í höndum Skipulagsstofnunar. Næstu skref fyrirtækisins eru að leita sem fyrst, í samráði við sveitastjórn Skútustaðahrepps, álits Skipulagsstofnunar á því hvort þörf sé að endurskoða matið í hluta eða í heild.

Stefnt að varfærinni uppbyggingu með 45 MW virkjun

Bjarnarflagsvirkjun er í nýtingarflokki í rammaáætlun Alþingis um vernd og orkunýtingu landsvæða. Núverandi Bjarnarflagsstöð Landsvirkjunar hefur verið í rekstri frá árinu 1969, eða í yfir 40 ár. Í Bjarnarflagi er ein elsta nýtingarsaga háhitasvæðis á Íslandi og hefur nýting jarðhitavökva á svæðinu í um hálfa öld jafngilt 15-45 MW raforkuframleiðslu.

Landsvirkjun hefur unnið að undirbúningi nýrrar virkjunar í Bjarnarflagi frá árinu 1992 og er útboðshönnun og útboðsgagnagerð fyrir 45 MW virkjun nú á lokastigi. Með hliðsjón af þeirri varfærnu uppbyggingu sem Landsvirkjun stefnir að með 45 MW virkjun í Bjarnarflagi, þeim viðamiklu rannsóknum sem liggja fyrir og áratuga reynslu af jarðhitanýtingu á svæðinu bindur Landsvirkjun vonir við að heimilt verði að halda áfram uppbyggingu á svæðinu þegar ákvörðun Skipulagsstofnunar liggur fyrir og henni hefur verið framfylgt.

Undirbúningsframkvæmdum verður haldið í lágmarki þar til frekari ákvörðun liggur fyrir og samráð við hagsmunaaðila um framhaldið verður aukið.

Kynningar frá fundinum ásamt upptöku verður hægt að nálgast á eftirfarandi vefslóð á næstu dögum: www.landsvirkjun.is/bjarnarflag

 

Fréttasafn Prenta