Frétt

Lærdómur til framtíðar

28. janúar 2016

Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri ritar grein í Fréttablaðið í dag, þar sem hún fjallar m.a. um áherslu Landsvirkjunar á rannsóknir og vöktun umhverfisþátta.

Þegar tekin er ákvörðun um að virkja náttúruöflin er óhjákvæmilegt að vega ávinninginn á móti því sem tapast. Án orku verður athafnalífið fábreytt, en orkuvinnsla hefur umhverfisáhrif. Þessum staðreyndum verður ekki breytt og þessa hagsmuni verður að meta.

Við Íslendingar búum svo vel að hafa betri aðgang að endurnýjanlegri orku en flestar aðrar þjóðir í heiminum. Endurnýjanleg orka hefur gegnt lykilhlutverki í því að stemma stigu við gróðurhúsaáhrifunum, eins og til að mynda kom skýrlega fram á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í byrjun desember. Þjóðir heims leitast við að draga eins og mögulegt er úr vinnslu á orku úr auðlindum sem eru ekki óþrjótandi, á borð við jarðefnaeldsneyti, og hafa mun meiri neikvæð hnattræn umhverfisáhrif en endurnýjanleg orka. Í París var augljóst að margir vildu vera í sporum okkar og hafa aðgang að endurnýjanlegum auðlindum í jafn ríkum mæli.

Við viljum þekkja áhrifin

Þar með er þó ekki sagt að endurnýjanleg orka hafi alls engin umhverfisáhrif. Landsvirkjun kappkostar að nýta þær auðlindir sem henni er trúað fyrir af ábyrgð og með sjálfbærni að leiðarljósi. Hluti af því er að þekkja áhrifin sem af starfseminni hljótast. Í því skyni höfum við staðið fyrir viðamiklum rannsóknum og vöktun umhverfisþátta í samstarfi við óháða aðila, meðal annars á lífríki í ám og vötnum.

Niðurstöður þessara rannsókna sýna meðal annars að laxastofn í Þjórsá hefur styrkst og laxveiði í Blöndu hefur aukist, auk þess sem stangaveiði í Jökulsá á Dal hefur hafist eftir að virkjað var. Á hinn bóginn, og við drögum ekki dul á það, hefur til að mynda dregið úr veiði í Lagarfljóti og urriðastofninn minnkaði eftir virkjun í Soginu á síðustu öld. Við kynntum þessar niðurstöður ásamt Veiðimálastofnun með vel sóttum fundi á dögunum, en upptaka frá honum er aðgengileg hér.

Markvissar mótvægisaðgerðir

Metnaður okkar stendur til þess að draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar eins og auðið er, með markvissum mótvægisaðgerðum. Við grípum einnig til aðgerða til að hámarka jákvæðari áhrif. Við höfum, í samstarfi við sérfræðinga, viðað að okkur mikilli þekkingu, sem gerir okkur kleift að þróa aðferðir og tækni til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfseminnar í framtíðinni. Þetta er allt í samræmi við hlutverk Landsvirkjunar, sem er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.

Þessi þekkingarleit gefur okkur lærdóm til framtíðar, sem miðar að því að við höldum áfram að nýta auðlindina af ábyrgð og með sjálfbærni að leiðarljósi.

Fréttasafn Prenta