Frétt

Lagning hornsteins að stöðvarhúsi Búðarhálsvirkjunar

29. október 2012
Fjölmenni

Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, lagði í dag hornstein að Búðarhálsvirkjun en áætlað er að virkjunin komist í rekstur í árslok 2013

Fjölmenni var við lagningu hornsteins Búðarhálsvirkjunar sem fór fram í dag við hátíðlega athöfn í stöðvarhúsinu.  Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar setti athöfnina.  Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson lagði hornsteininn og naut við það aðstoðar Pálmars Óla Magnússonar, framkvæmdastjóra framkvæmdasviðs og Kristins Eiríkssonar, staðarverkfræðings Landsvirkjunar.  Auk forseta Íslands fluttu ávörp við athöfnina  Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, Bryndís Hlöðversdóttir, formaður stjórnar Landsvirkjunar og  Guðlaugur V. Þórarinsson, verkefnastjóri Búðarhálsvirkjunar sem lýsti framkvæmdum.

Hörður Arnarson sagði við þetta tilefni að ljóst væri að miklar væntingar væru gerðar til Landsvirkjunar í íslensku samfélagi og að fyrirtækið myndi gera sitt besta til að standa undir þeim væntingum.  „Búðarhálsvirkjun mun gera okkur enn betur kleift að starfa í samræmi við hlutverk Landsvirkjunar, að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi“ sagði Hörður.

Í ávarpi sem Bryndís Hlöðversdóttir, formaður stjórnar Landsvirkjunar, flutti sagði hún að Landsvirkjun hefði mikilvægu hlutverki að gegna í íslensku samfélagi.  Bryndís lagði áherslu á hve vel hefði tekist til með framkvæmdina og góða samvinnu verkkaupa og verktaka sem hefði skilað sér í vel skipulögðu vinnusvæði þar sem öryggismál eru í forgrunni . „Það er líka vert að geta þess hversu mikil eining hefur verið um byggingu Búðarhálsvirkjunar og þannig hefur hún stutt við markmið Landsvirkjunar um aukna sátt um starfsemi fyrirtækisins í samfélaginu. Framkvæmdirnar við Búðarhálsvirkjun hafa í reynd verið til fyrirmyndar í alla staði“ sagði Bryndís jafnframt.

Upphaflega hófust framkvæmdir við Búðarháls árið 2001 en þeim var síðar slegið á frest. Á árinu 2010 hófust framkvæmdir að nýju. Áætlað er að virkjunin verði komin í rekstur fyrir árslok 2013. Áætlað afl virkjunarinnar verður um 95 MW og orkugeta allt að 585 GWst á ári. Heildarársverk sem skapast vegna byggingar Búðarhálsvirkjunar yfir allan framkvæmdartímann eru á milli 700 og 800.
Búðarhálsvirkjun verður rekin samhliða öðrum virkjunum Landsvirkjunar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, en þar eru fyrir sex aflstöðvar í rekstri. Með tilkomu Búðarhálsvirkjunar má segja að búið sé að fullnýta fall frá Þórisvatni niður fyrir Sultartanga.

Fallhæð-og-aflsstöðvar

 

Tilhögun virkjunar

Búðarhálsvirkjun er virkjun í Tungnaá og nýtir fallið í ánni frá frávatni Hrauneyjafossvirkjunar að Sultartangalóni. Vatnsfallið er um 40 m, virkjað rennsli er 240 m3/s og uppsett afl stöðvarinnar verður 95 MW. Árleg orkuvinnslugeta er áætluð 585 GWst.

Megintilhögun Búðarhálsvirkjunar er þannig að tvær jarðvegsstíflur eru byggðar austan við Búðarháls skammt ofan við ármót Köldukvíslar og Tungnaár. Önnur stíflan þverar farveg Köldukvíslar og hin frávatn Hrauneyjafossstöðvar. Stíflurnar verða báðar um 25 metra háar þar sem þær eru hæstar og önnur þeirra um 1100 metra að lengd og hin um 170 metra löng.  Með stíflunum myndast inntakslón Búðarhálsvirkjunar sem nefnt hefur verið, Sporðöldulón, og verður stærð þess um 7 km2 að flatarmáli.  Lónið mun aðallega fylgja árdal Köldukvíslar en einnig ná lítillega inn í Þóristungur. Um 4 km löng aðrennslisgögn munu leiða vatnið frá inntaksvirki við Sporðöldulón til vesturs undir Búðarhálsinn að jöfnunarþró og inntaki hér  við Sultartangalón. Tvær 60 m langar fallpípur úr stáli flytja vatnið frá inntaki að hverflum stöðvarinnar. Stöðvarhúsið er steypt og að mestu ofanjarðar, grafið inn í vesturhlíð Búðarháls.

Vélasamstæðurnar eru tvær af kaplan gerð og er hvor þeirra 47,5 MW.

Orka Búðarhálsvirkjunar verður flutt frá vélaspennum, sem standa munu á stétt framan við stöðina, í jörð að tengivirkisbyggingu Landsnets sem nú er að mestu risin hér sunnan við stöðvarhúsið. Frá tengivirkinu verður orkan flutt með háspennulínu austur yfir Búðarháls að Hrauneyjafosslínu og tengjast þar með landskerfinu.
 

Undirbúningur og leyfi

Fyrsta hönnunarskýrsla á vegum Landsvirkjunar fyrir Búðarhálsvirkjun var gerð árið 1989 og 10 árum síðar var virkjunin verkhönnuð í þeirri útfærsu sem við sjáum hér.

Mat á umhverfisáhrifum Búðarhálsvirkjunar fór fram lögum samkvæmt og í maí 2001 féllst Skipulagsstofnun á framkvæmdinna með því skilyrði að bætt verði fyrir tap á gróðurlendi af völdum Sporðöldulóns með mótvægisaðgerðum sem felast í endurreisn á sambærilegu gróðurlendi sem næst lóninu. Í samstarfi Landgræðslu ríkisins,  Ásahrepps, Rangárþings ytra og Landsvirkjunar var árið 2009 gerð áætlun um aðgerðir til að uppfylla ofangreint skilyrði og í framhaldi af því undirritaður samstarfssamningur um aðgerðir sem nú þegar hafa staðið yfir í 4 ár með góðum árangri. Önnur umhverfisáhrif vegna Búðarhálsvirkjunar voru metin minni.

Öll leyfi vegna framkvæmdarinnar lágu fyrir haustið 2001.
 

Framkvæmdir

Framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun hófust upphaflega undir lok árs 2001. Fyrstu framkvæmdir fólust í því að byggja brú yfir Tungnaá og leggja vegi yfir Búðarháls að framkvæmdasvæðum stöðvarhúss og Sporðöldustíflu. Einnig var þá að hluta grafið fyrir sveifluþró.  Sumrin 2008 og 2009 var unnið að frekari undirbúningi en þá var lagður rafstrengur frá Hrauneyjafossvirkjun að fyrirhugðum framkvæmdasvæðum og settar voru upp vinnubúðir.

Til stóð að hefja framkvæmdir að nýju á árinu 2009 en það dróst vegna óvissu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Fyrstu útboðin voru auglýst í júní 2010.

Í október 2010 var í framhaldi af útboði á byggingarframkvæmdum samið við Ístak hf. um gerð jarðganga, stíflu, stöðvarhúss og annarra mannvirkja og hóf Ístak framkvæmdir í sama mánuði. Framkvæmdir hafa því í dag staðið yfir í nákvæmlega tvö ár. Í desember 2010 var samið við þýska fyrirtækið Voith Hydro um vél- og rafbúnað fyrir stöðina. Báðir þessir samningar voru í fyrstu með þeim fyrirvara að aðeins var unnið að skilgreindum verkefnum þar til Landsvirkjun lyki við fjármögnun verkefnisins. Fjármögnun verkefnisins lauk að fullu í apríl 2011 og var þá þessum fyrirvörum aflétt.

Útboðum á öðrum hlutum verkefnisins lauk á þessu ári og eru helstu verksamningar sem gerðir hafa verið eftirfarandi. Verksamingur var undirritaður  í september 2011 við Íslenska aðalverktaka um smíði og uppsetningu á fallpípum. Í janúar 2012 var gerður verksamningur við franska fyrirtækið Alstom hydro um smíði og uppsetningu á lokum og í apríl var samið við Portúgalska fyrirtækið Efacec um framleiðslu á vélaspennum.

Allir verksamningar sem undirritaðir hafa verið voru gerðir í framhaldi af útboðum á evrópska efnahagssvæðinu.  Mikil áhugi var víða um heim á þessu verkefni.

Að undanförnu hafa að jafnaði starfað um 300 manns á verkstað og er búið að vinna sem nemur tæplega 600 ársverk við þetta verkefni.   Hér eru ekki meðtaldir aðilar sem vinna að  framleiðslu á vél og rafbúnaði fyrir stöðina víða um heim.

Öryggismál eru forgangsverkefni við byggingu Búðarhálsvirkjunar og sú nýjung er viðhöfð hér að kostnaður verktaka vegna öryggismála er greiddur sérstaklega en ekki sem hluti af öðrum greiðsluliðum eins og áður var.  Stefnan í öryggismálum hér er nefnd „Núll slysa stefna“ þar sem eins og nafnið gefur til kynna, allt er gert sem mögulegt er til að koma í veg fyrir slys.  Árangurinn hingað til er góður og hvatning til allra sem hér starfa að halda þessari öryggisvitund til verkloka.
 

Hönnun

Verkfræðihönnun Búðarhálsvirkjunar er öll unnin af íslenskum verkfræðistofum.  Verkfræðistofan Efla hf hannar öll byggingarmannvirki og hefur yfirumsjón með annarri hönnun.  Verkfræðistofan Mannvit hannar lokur og fallpípur og verkfræðistofan Verkís hannar vélbúnað og húskerfi.  Arkitektar Búðarhálsvirkjunar eru arkitektarnir Ormar Þór Guðmundsson, Garðar Guðnason og Sigurður Gústafsson og starfa þeir allir hjá arkitektastofunni OG.
 

Eftirlit

Eftirlit á staðnum annast starfsmenn Landsvirkjunar ásamt starfsmönnum frá verkfræðistofunni Hnit hf.
 

Kostnaður

Áætlaður bókfærður heildarkostnaður Búðarhálsvirkjunar er 230 milljónir bandaríkjadala.  Um 67% kostnaðar fellur til í íslenskum krónum og annað að mestu í bandaríkjadölum.

Fréttasafn Prenta