Frétt

Landsvirkjun breytir skuldabréfum

20. mars 2014
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar

Landsvirkjun lauk í dag samningum um skuldbreytingu á þremur útistandandi skuldabréfum fyrirtækisins. Í öllum tilvikum var skuldabréfum útgefnum í evrum breytt í Bandaríkjadal. Tvö af skuldabréfunum voru gefin út árið 2003 með gjalddaga á árinu 2018 og eitt var gefið út árið 2004 með gjalddaga á árinu 2019. Skuldabréfin voru samtals að fjárhæð 75 milljónir evra en eftir skuldbreytinguna nemur fjárhæð þeirra um 103 milljónum Bandaríkjadala. Skuldbreytingarnar eru liður í þeirri stefnu fyrirtækisins að draga úr gengisáhættu í lánasafni fyrirtækisins. 

Ávinningur Landsvirkjunar með skuldbreytingunni felst í því að dregið er úr fjárhagslegri áhættu vegna mögulegra breytinga á gengi evru gagnvart Bandaríkjadal sem er starfsrækslumynt fyrirtækisins. Við skuldbreytinguna lækkar hlutfall evru í vaxtaberandi langtímaskuldum úr 29% í 25% en hlutfall Bandaríkjadals hækkar að sama skapi úr 54% í 58% frá stöðu langtímaskulda í árslok 2013.

Fréttasafn Prenta