Frétt

Landsvirkjun dregur til baka boðaðar takmarkanir á orkuafhendingu

5. október 2015

Landsvirkjun hefur ákveðið að draga til baka boðaðar takmarkanir á afhendingu rafmagns til viðskiptavina samkvæmt sveigjanlegum samningum í ljósi bættrar miðlunarstöðu eftir mikið innrennsli í miðlunarlón í september. Staða í miðlunum fyrirtækisins í lok ágúst var slæm, sérstaklega í Hálslóni og í ljósi stöðunnar tilkynnti Landsvirkjun viðskiptavinum með mánaðar fyrirvara að líklega þyrfti að nýta ákvæði í samningum og draga úr raforkuframboði í vetur. 

Septembermánuður var mjög hlýr á öllu landinu en landsmeðalhiti var yfir meðallagi síðustu 10 ára. Hlýindi fyrri hluta mánaðarins höfðu mikil áhrif á innrennsli til miðlana og tók jökulleysing vel við sér. Þann 13. september mældist t.d. hæsta dagsmeðaltal innrennslis til Hálslóns í 580 m3/s, en það er mesta innrennsli sem mælst hefur í september frá því miðlunin var tekin í notkun.

Verulega þurrt vatnsár 2014/2015

Þrátt fyrir aukið innrennsli í september nær mánuðurinn ekki að vega upp slaka sumarmánuði og miðlunarlón eru ekki full nú fyrir veturinn. Árið fellur því í flokk verulega þurra vatnsára þó Landsvirkjun telji ekki nauðsynlegt að grípa til takmarkana á afhendingu til stórnotenda nú.

Veðurfar yfir vetrarmánuðina mun ráða því hvort takmarka þurfi afhendingu í byrjun næsta árs.

Miðlunarforði stendur í 93% í upphafi nýs vatnsárs

Heildar miðlunarforði Landsvirkjunar stendur nú í rúmum 93%. Lón á Þjórsársvæði standa nú í 91%. Fylling Blöndulóns stendur í stað í 75%. Fylling Hálslóns stendur í 95%. Vatnshæð Hálslóns stendur í dag í 623,77 m y.s. og vantar því enn rúman metra á að það fyllist og fari á yfirfall.

Á vef Landsvirkjunar er hægt að fylgjast með vatnshæð stærstu lóna frá degi til dags:
www.landsvirkjun.is/rannsoknirogthroun/voktun

Fréttasafn Prenta