Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli Landsvirkjunar og íslenska jarðvarmaklasans (Iceland Geothermal) um að Landsvirkjun verði einn af fimm aðalbakhjörlum alþjóðlegu jarðhitaráðstefnunar, Iceland Geothermal Conference 2016. Ráðstefnan verður haldin í Hörpu dagana 26. – 29. apríl 2016.
Á ráðstefnunni verður lögð áhersla á fjölnýtingu jarðvarmans og margvíslegar leiðir til verðmætasköpunar tengdri jarðvarmavinnslu.
Ráðstefnan hefur verið haldin tvisvar áður, fyrst árið 2010 og síðast árið 2013. Um 600 þátttakendur frá 40 löndum tóku þátt í síðustu ráðstefnu. Sjá nánar um ráðstefnuna: http://www.geothermalconference.is/