Frétt

Landsvirkjun fær verðlaun fyrir græn skuldabréf

6. mars 2019
Á myndinni eru: Sean Kidney, framkvæmdastjóri Climate Bonds Initiative, Ólafía Harðardóttir, yfirmaður sjóðastýringar hjá Landsvirkjun, Jóhann Þór Jóhannsson, yfirmaður lánamála hjá Landsvirkjun og Rafnar Lárusson, fjármálastjóri Landsvirkjunar.

Landsvirkjun hefur fengið verðlaun fyrir að vera brautryðjandi á sviði grænna skuldabréfa (e. Green Bond Pioneer Award) á árlegri ráðstefnu Climate Bonds í London. (Sjá hér.)

Brautryðjendaverðlaunin fyrir græn skuldabréf eru árleg viðurkenning sem veitt eru til samtaka, fjármálastofnana, ríkisstjórna og einstaklinga sem hafa sýnt frumkvæði með útgáfu grænna skuldabréfa. Útgefendur hafi þar með sýnt jákvætt fordæmi um umhverfisvænar fjárfestingar með lítið kolefnisspor á alþjóðlegum svæðum og mörkuðum.

Í mars 2018 varð Landsvirkjun fyrsta íslenska fyrirtækið til að gefa út græn skuldabréf þegar fyrirtækið gaf út skuldabréf að fjárhæð samtals 200 milljónir dollara í gegnum lokað skuldabréfaútboð á Bandaríkjamarkaði (e. US private placement). Andvirði útgáfunnar hefur að fullu verið ráðstafað til tveggja verkefna, byggingar Þeistareykjavirkjunar og Búrfellsstöðvar II. Útgáfan var jafnframt með fyrstu grænu skuldabréfunum sem gefin eru út á þeim markaði.

Samhliða útgáfunni útbjó Landsvirkjun ramma vegna útgáfu grænna skuldabréfa, samkvæmt viðmiðum ICMA (e. International Capital Market Association) um græn skuldabréf (e. ICMA Green Bond Principles). Græn skuldabréf Landsvirkjunar eru notuð til að fjármagna eða endurfjármagna verkefni sem stuðla að sjálfbærri, ábyrgri og skilvirkri nýtingu endurnýjanlegra náttúruauðlinda á Íslandi.

Rafnar Lárusson, fjármálastjóri Landsvirkjunar:

„Ísland er land endurnýjanlegrar orku, þar sem 100% af raforkuvinnslu koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Landsvirkjun var fyrsti íslenski útgefandi grænna skuldabréfa og erum við mjög stolt af þessari viðurkenningu á framlagi okkar til að styðja við græna orkuvinnslu, sem er ein af meginleiðunum til að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Góðar viðtökur við útgáfunni staðfesta stuðning og áhuga fjárfesta á grænni fjármögnun og við erum spennt fyrir því að vera hluti af ört vaxandi markaði með græn skuldabréf – markaði sem heldur áfram að vaxa, bæði í mikilvægi og stærð.“

Sean Kidney, framkvæmdastjóri Climate Bonds Initiative:

„Verðlaunin í ár eru með sérstaka áherslu á smáar þjóðir, enda berum við öll ábyrgð á því að grípa til aðgerða vegna loftslagsmála. Landsvirkjun er brautryðjandi á Íslandi þegar kemur að grænni fjármögnun og hefur rutt leiðina fyrir aðra. Fyrirtækið er vel að verðlaununum komið.“

Fréttasafn Prenta